mánudagur, 26. desember 2011

Til þess að reyna að brjóta upp átið og koma mér í einhvern annan gír í dag ákvað ég að fara til Wrexham, fara í Next og ná í stígvél og pils sem ég hafði pantað í gegnum Next Directory og kíkja á útsöluna sem hófst þar í dag. Next útsalan er eitt af þessu sem ég hef alltaf fylgst með af öfund. Þegar ég vann hjá D & A sá ég Next út um gluggann hjá okkur og þessi annan í jólum útsala var alltaf alveg rosaleg. Verslunin opnar um 6 leytið á morgnana og oftar en ekki er fólk búið að standa í biðröð lengi fyrir utan til að komast í bestu leppana. Útsalan er góð, allt á 50% afslætti  og það er ekki slæmt að fá fínni vinnuföt þar, buxur á 20 pund sem áður voru 40 og svo framvegis. Það er nú eiginlega bara í fyrra og svo núna í ár sem ég get samt tekið þátt af einhverju marki. Áður var náttúrulega ekkert til á mig.  Og núna ef ég ætlaði mér að ná í eitthvað í minni stærð hefði ég sjálfsagt þurft að vera í biðröðinni klukkan 6 í morgun af því að 14 og 16 eru greinilega vinsælustu númerin og fara fyrst. Þannig að ég gat ekki að því gert en að fyllast smá spenningi við tilhugsunina um að loksins geta keypt mér föt á þessari frægu Next útsölu. Þegar ég var feit var Next eitthvað sem ég bjó til sem viðmið um þar sem ég þráði að geta verslað. Falleg og klassísk föt, allt svona smart casúal sem passaði vel í vinnuna, ekki of dýrt og svo langt utan seilingar fyrir mig. Ég hef þessvegna alltaf sveipað Next einhverjum töfraljóma, fór þangað inn í nánast hverju hádegishléi og ímyndaði mér hvernig lífið væri ef ég gæti bara labbað þangað inn og keypt mér hvað sem mig langaði í. Ég er enn að venjast því að geta bara labbað inn í hvaða búð sem er og þarf í rauninni að fara að víkka sjóndeildarhringinn og fara að labba inn í fleiri búðir en bara Next.

Tilgangurinn var nú samt ekki bara að kaupa á útsölu, ég var aðallega að ná í pöntunina mína. Fór beint upp og mátaði stígvélin. Og skilaði aftur. Þau pössuðu en voru asnaleg á ökklanum. Skrýtið. Ég hafði einhvernvegin alltaf gert ráð fyrir að þegar maður væri komin í venjuleg númer að allt væri bara fínt á manni. Þannig að ökklakrump á stígvélum fara meira í pirrurnar á mér en ella. Ég átti bara ekki von á þessu. Skoðaði pilsið og var mjög efins um að ég myndi nota en út af útsölunni var ekki hægt að máta þannig að ég ákvað að taka það með mér heim. Fór niður og rölti einn hring um búðina. Varð hálf ringluð af mannmergðinni. Sá rauða jólakjólinn minn sem ég keypti í lok ágúst á 45 pund núna niðursettur á 20. Og varð pirruð. Sá einn ágætan vinnukjól á 18 pund en setti aftur á slána þegar ég sá röðina til að borga. Hikaði fyrir framan ullarvinnubuxnaslána, eftir át síðustu dagana finnst mér ég vera 200 kíló og langar ekki í þykkar buxur. Snerist að lokum á hæli og fór út og heim, nennti þessu ekki. Eftir alla þessa tilhlökkun hrökklaðist ég semsagt tómhent og rugluð út.

Mátaði pilsið þegar ég kom heim og ég hefði átt að skila því strax eins og ég vissi, það er ekki sjéns að fá mig í pils. Veit ekki hvað ég var að spá. Þannig að núna þarf ég að gera mér ferð í búð eftir vinnu á miðvikudag. Fór svo á netið til að skoða útsöluvörurnar á netinu og það fyrsta sem ég sé er þetta pils, sem ég var rukkuð 38 pund fyrir núna hægt að fá á 18 pund. Ekki spurning núna um að því verði skilað. Ég þoli ekki útsölur og skil ekki hvað ég var að öfundast út í fólk að geta verlsað. Ég þarf þá alla vega núna að sleppa því algerlega að versla í Next allt 2012. Þá kannski gæti ég verið ánægð með útsölukaup á annan í jólum næst. Ég er bara ekki hagsýn eða sniðug eða með svona útsölugrams í mér.


2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Það er svo merkilegt að eftir að maður fór að passa í föt þá samt eru til föt sem eru asnaleg og passa manni ekki. Það góða er að maður þarf ekki lengur að kaupa hvað sem er, bara af því að maður passar í þau. Núna getur maður verið pikkí og samt fundið föt!

Vona að þú hafir átt yndislegan tíma heima á Íslandi og að þú hafir það gott yfir áramótin.

Bestu kveðjur frá Tokyo

murta sagði...

Takk mín kæra og sömuleiðis, bestu kveðjur Austur eftir :)