þriðjudagur, 3. janúar 2012

Í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að hlaupa varð ég að játa mig sigraða í morgun. Ég vaknaði stuttu eftir fimm, tróð mér í gallann og var albúin að fara út. En hreinlega varð frá að hverfa vegna veðurs. Ég hef nú bara aldrei séð annað eins. Eftir götunni fuku ruslatunnur og annað lauslegt, regnið lamdi rúðurnar svo ég sá vart út og ég sá í hendi mér að ég myndi ekki komast langt. Og tók þá epísku ákvörðun að skríða bara aftur upp í heitt bólið hjá eiginmanninum. Og svaf á mínu græna eyra í stað þess að hlaupa. Hafði hugsað mér að hlaupa þá bara eftir vinnu en þegar ég kom heim í kvöld var veðrið bara engu skárra. Og Dave sagði mér að hann lenti í umferðaröngþveiti vegna þess að trampólín hafði fokið úr einhverjum garðinum og lá nú þvert yfir hraðbrautina! Spennandi. Og verra er að mér sýnist samkvæmt spám að sama verði upp á teningnum á morgun. En ég ætla reyndar að gera þá pilates frekar en að leggjast bara á hina hliðina.

Ég kom líka heim úr vinnu í kvöl uppfull af eldmóði og réðist beint í að leika mér í eldhúsinu. Ofnbakaði næpur (parsnips). Mikið ægilega sem það var gott, hafði sem meðlæti með bixí afgangi síðan á sunnudaginn. Ætla næst að prófa að búa til snakk úr þeim, skera þunnar sneiðar og baka eins og kartöfluflögur. Svo bjó ég til ægilega fínar möndlu-og döðlusmákökur, hveiti og sykurlausar. Bjó líka til hveiti úr rúgflögum sem ég hef verið að nota í hrágraut að undanförnu og bakaði úr því bananabrauðbollur í morgunmat en var svo æst yfir að hafa búið til hveiti að ég gleymdi að setja í þær lyftiduft og salt þannig að þær urðu dálítið þungar og braglausar. En hugmyndin góð og ég prófa tvímælalaust aftur og þá með lyftiduftinu.

Þetta allt saman hefur hjálpað mér að díla við sorgina í dag. Ég er nefnilega í ægilegu sykurfráhvarfi núna og það lýsir sér alltaf sem ofboðsleg sorg. Það góða er að ég veit núna að þetta er bara kemísk tilfinning og ég þarf bara að finna mér eitthvað skemmtilegt til dundurs til að dreifa huganum. Og svo líður hún hjá og ég verð aftur eins og ég á að mér. Ekkert mál.

Engin ummæli: