laugardagur, 25. febrúar 2012

Þar sem ég stóð við uppvaskið fékk ég uppljómun. Heilinn í mér var að hugsa um pizzu og súkkulaðiköku, svona hálfshugar, þegar vitund mín sagði heilanum að mig langar ekki í pizzu og súkkulaðiköku. Mig langar í hollt af því að mér líður svo vel af því og af því að það er svo gott á bragðið. Hugsunin var eitthvað á þá leið að mig langar til að fá pizzu í öll mál en svo mótmælti ég sjálfri mér vegna þess að mig langaði frekar í hafragraut í morgunmat. Og grænkálssalat í hádegismat. Og húmmús. Og nýja kókóshnetuísinn minn. (Uppskrift á leiðinni).

Mikið ósköp finnst mér gaman þegar heilinn í mér þarf smá tíma til að venjast svona nýjum hugsunargangi, ég er svo vön að hugsa feitt að ég fatta stundum ekki að það er mér í alvörunni orðið eðlisægra að hugsa mjótt.

Út frá þessu datt  mér líka í hug eitthvað sem ég hafði lesið hjá Ben Davis. Hann er búinn að léttast um milljón kíló og er hættur að vera þunglyndur. Hann var líka haldinn spilafíkn en hefur núna "stjórn" á henni. Hann skrifar í gær að hann hafi farið með vini sínum svona spontant til Vegas til að spila- "because we are having fun, not because we need to" skrifar hann. Og þetta sló mig dálítið. Er þetta blekking fíkilsins? Er hægt að lækna sig af fíkn þannig að maður getur gert smá? FAA (Food Addicts Anonymous) eru ekki sammála. Samkvæmt þeim þarf maður bara að sleppa algerlega því sem maður er sjúkur í.

Sjálfri finnst mér það ágætis kenning. Ég er núna búin að vera sykur-frúktósa og hvítt hveiti laus núna í fjórar vikur og ég er ekki frá því að ástæðan fyrir þessari skýru hugsun sem ég hafði þarna við uppvaskið hafi komið til vegna þess að ég er frjáls frá lönguninni.

Annað sem ég hef verið að gera tilraun með er að borða  þrjár stórar máltíðir á dag frekar en sex smærri. Ég borða þannig að ég er ekki svöng á milli mála, þetta er miklu auðveldara upp á vinnuna og það sem er allra best er að þetta skapar minni þráhyggju. Ég er ekki hugsandi um mat á eins til tveggja tíma fresti, bara fjögurra til fimm. Mér líður vel.

Vigtin hreyfist ekki akkúrat núna. En ég er líka eiginlega hætt að stíga á hana vegna þess að mér líður eins og ég sé þvengmjó núna. Ég sé og finn gífurlegan mun á mér. Og þegar ég sé að vigtin hefur ekki hreyfst þá byrja ég að efast um hversu mjó ég er og byrja að panikka og líða illa. Þannig að það er betra að halda sig frá vigtinni og líða vel. Mér finnst voðalega mikilvægt að líða vel.

2 ummæli:

Ásta María Guðmundsdóttir sagði...

Rosa flott hjá þér! Magnaður árangur og magnaðar pælingar alltaf hreint!

Ég er að undirbúa sykur-mjólkurlausan mánuð (þarf að taka út mjólkina alveg og það reynist mér einhvernegin meira mál en ég hélt það yrði). Finnst mega að geta skoðað bloggið þitt aðeins til að fá meðbyr!

En hefuru prufað hveitikím (hef ekki tekið eftir tali um það hér)?

Ég kynntist kíminu þegar mamma fór í GSA og núna fæ ég mér reglulega hveitikímsvöfflur sem hjálpa mér ótrúlega með matarlystina og gefur mér góða næringu!

Keep up the good work!

Kv. Ásta María aðdáandi

murta sagði...

Mér þætti mikið mál að sleppa mjólkinni, er alveg háð jógúrti. Gangi þér vel.

Ég hef ekki mikið tilraunast með kímið, var búin að skoða það aðeins. Takk fyrir ábendinguna :)