sunnudagur, 25. mars 2012

Tölvulaus er ég bara hálf manneskja. Það er ómögulegt að geta ekki skrifað niður það sem mér dettur í hug. En nú er allt komið í lag þannig að ég get aftur byrjað að hugsa.

Allir að koma sér fyrir.
Vikan er búin að vera löng og ströng í vinnunni og ég því orðin langþjáð þegar sunnudagur loksins rann upp. Ég var búin að skrá mig í þriggja mílna hlaup fyrir góðgerðarátakið Sport Relief og hafði séð það fyrir mér sem þriðja innleggið í "12 á 12" verkefninu mínu. Líkamsrækt, peningasöfnun fyrir góðan málstað og útivistardagur og skemmtilegheit fyrir alla fjölskylduna; gæti ekki verið betra. 

Tilbúin!
Lukkan var yfir okkur og hér er ljómandi veður, upplagt til útivistar. Eiginlega meira en ljómandi, ég hugsa að hitinn hafi slagað hátt upp 20 gráður um miðjan dag. Glampandi sól og stilla. Við pökkuðum þessvegna með okkur nesti því hlaupið átti að fara fram í Ty Mawr sem er gullfallegt svæði þar sem við förum oft í göngutúra og stoppum í lautarferð.

Hægt var að velja um sex, þrjár eða eina mílu. Ég hafði ákveðið að fara bara þrjár sem rétt slaga í 5km. Fannst það bara nóg í svona skemmtiskokki. Hef líka sterkan grun um að ég sé alls ekki í 10 km formi lengur.

ég og Glen Little, miðjumaður Wrexham FC - Lukkan yfir mér!
Við komum okkur fyrir við upphafsreit, og tveir af leikmönnum Wrexham FC sáu um upphitun og smá pepp og allir þáttakendur í jafn glampandi skapi og sólin skein. Það var ekki neinar tímamælingar og öll stemningin meira stuð og gaman frekar en alvarlegt hlaup eins og það sem ég tók þátt í í desember. Fullt af fólki í búningum, sá sem helst stóð upp úr var klæddur eins og varúlfur. Eða ég vona að þetta hafi verið búningur. Leiðin sem var hlaupin var frá Ty Mawr Barn, í gegnum dalinn framhjá ánni og upp að Ponctysyllte Aquaduct. 
Aquaduct.
Þar þurfti maður að klifra upp snarbrött þrep upp að aquaduct, snúa svo við og hlaupa niður og svo upp aftur í gegnum skóginn að endalínunni. Þetta var bara skemmtilegt. Ofboðslega fallegt umhverfi, allir í góðu skapi og ég smitaðist af stemningunni og fór heldur geist af stað. Hélt tempói við mjóa stelpu allan tímann. Þurfti reyndar að labba aðeins en bætti það alltaf upp með að hlaupa því hraðar þegar ég hljóp. Kom svo í mark á 33:20, minn langbesti tími.

Lúkas með Ty Mawr dalinn í baksýn.
Við markið stóðu svo borgarstjórinn og Danny Wright og Glen Little sem báðir spila fyrir Wrexham. Þeir létu mig fá medalíu og ég heimtaði að fá mynd með Glen svo ég gæti montað mig við Dave. Dave er harður Wrexham  aðdáandi, fór meira að segja með mig á leik þegar ég fyrst kom hingað (við töpuðum 3-0 fyrir Macclesfield og ég hef verið í leikbanni síðan).

Svo sátum við úti í sólinni, borðuðum nesti, lékum okkur og skoðuðum náttúruna allt í kring.

Ég safnaði ekki miklum pening, borgaði £10 sjálf og fékk önnur £20 í styrki, en mér líður samt vel með það, allt hjálpar og ég fékk stórskemmtilegt hlaup út úr deginum. Við keyrðum síðan aðeins um á leiðinni heim og reyndum að mæla út nýjar hlaupaleiðir fyrir mig. Mjög spennandi.

Komin með medalíu og welsh hottie upp á arminn; mín aðal klappstýra .

2 ummæli:

Hanna sagði...

ohhh gaman að "heyra" frá þér aftur - ég er búin að sakna þín :-)
Knús
H

murta sagði...

Good to be back! ;) Smúúúss!!