mánudagur, 7. maí 2012

Draumurinn úti. 
Ég er tilbúin að gefa upp á bátinn þennan draum minn um að verða súkkulaði conniosseur. Ég komst yfir alveg svakaleg súkkulaði um daginn. Da creme de la creme. Súkkulaði súkkulaðanna og allt það. Willie´s Delectable Chocolate er eins háfágað og fínt og dökkt súkkulaði getur orðið, þeir framleiða það úr kakaóbaunum sem er nánast útdauðar, allt ræktað af einhverjum sjamönum í Perú og Indónesíu og er eins smart og artí og miðstéttarplebbi eins og ég gæti beðið um. Og svo vont. Svo, svo vont. Ég borgaði næstum því 4 pund fyrir 80 grömm af súkkulaði sem ég gat ekki aðskilið í bragðgæðum frá Konsúm suðusúkkulaði. Ég sver það. Ég sat hérna með grátstafinn í kverkunum á meðan ég reyndi að sjúga molann með unun og gleði en það eina sem gerðist var að ég sat eftir með óbragð í munni og ófullnægða þrá eftir snickers. Ég ætla að láta af þessum draumi og einbeita mér bara að því að smjatta með gleðilátum á snickersinu þegar ég fæ það næst. Ég er og verð plebbi.

Mér hefur að undanförnu liðið eins og ég sé ægilega vond manneskja fyrir að vilja grennast. Í alvörunni, ég eyddi rúmum þrjátíu árum í að verja það að ég væri feit og barðist vonlausri baráttu við fordómafullt samfélagið um minn rétt til að fá að vera metin að innri verðleikum en ekki útliti og svo núna loksins þegar ég er að verða fitt þá fer allt samfélagið á fúll svíng í að berjast fyrir fituréttindum og margbreytilegu útliti. Really!?? Núna? Því miður þá er ég bara of skilyrt til að þrá það eitt að vera mjó að ég er eiginlega bara fúl út í allar þessar herferðir og greinaskrif og baráttu til að fá að vera feitur í friði. Hvar voruð þið þegar ég þurfti á ykkur að halda? Svo núna allt í einu þarf ég að verja það að vilja vera grennri en ég er núna. Að ég vigti mig. Eins og það sé glæpur. Ég stend á vigtinni og lít orðið flóttalega í kringum mig til að passa að það sjái enginn til mín við þetta glæpsamlega athæfi. En ét möndlucroissant á meðal almennings eins og enginn sé morgundagurinn. Málið er að ég finn alveg gífurlegan mun á mér eins og ég er núna, 91 kíló eða eins og ég var þegar ég var 86 kíló. 5 kílóa munur þýðir að ég er hægari um rúmar 30 sekúndur á hvern kílómetra sem ég hleyp. 30 sekúndur! Það er bara alveg heilmikið og fer gífurlega í taugarnar á mér. Þannig að þetta allífsmarkmið mitt um að vera hraust veltur bara heilmikið á því að ég sé mjó líka. Og ég get ekki að því gert en að hugsa með mér með mínum besta stærðfræðiheila að ef ég hleyp þetta mikið hraðar þegar ég er 86 kíló að ég hljóti þá að þjóta um eins og vindurinn ef ég væri 71 kíló. Þannig að ég verð bara að halda áfram að vera hræðileg manneskja og segja með þjósti að ég vilji vera mjó. Er það í alvörunni svo hræðilegt að vilja prófa það? Ég hef aldrei á ævinni verið grönn, hversvegna ætti ég ekki að fá að prófa það?2 ummæli:

STOG sagði...

Þú ert flott stelpa,og ekki vera án þess að hafa það smá "gott"en gangi þér vel .stog....

Inga Lilý sagði...

Eg er þjaningarsystir þin eins og er. Er buin að vera að berjast við að komast undir 80 kg, var buin að rokka i 80-82 kg i kringum maraþonið en allt i einu er eg komin upp i 85 kg, það er vist það sem gerist þegar maður hættir að æfa fyrir maraþon en borðar jafnmikið (eða meira) afram.

En nuna er bara að spita i lofana og halda afram, þyðir litið annað. Eg er lika alveg sammala, undir 83 kg liður mer nokkuð vel en þegar eg se 85 kg (sem þyðir að total þyngdartap er baaara 38,4 kg) þa fer eg i nett panik og finnst eg vera farin aftur i sama farið.

En við vitum hvað við þurfum að gera það og nu er bara að gera það - við getum þetta vel og verðum hlaupandi eins og vindurinn i sumar, minus amk 5 kg! :)