fimmtudagur, 14. júní 2012

Þetta er búin að vera alger súpervika. Mér finnst eins og ég hafi komið mér að miklu leyti fyrir inni í "Hringrás velgengninnar" þar sem hver góð ákvörðun leiðir af sér aðra góða ákvörðun. Ég er búin að borða  rosalega vel, hef legið yfir uppskriftum, eldað og borðað og það veitir mér ómælda gleði að fá að njóta þess bara að fullnægja þessari matarástríðu minni. Ég skil ekkert í því af hverju ég reyni að neyða sjálfa mig til að hugsa ekki um mat, þetta að fá að velta mér bara upp úr uppskriftum er greinilega mun áhrifaríkara. Þegar ég er í svona stuði horfi ég tilbaka og klóra mér hreinlega í hausnum yfir því að ég skuli í alvörunni stundum borða snakk og snickers. Ef því fylgir vanlíðan á meðan að hrágrautur og hafrarjómi veitir gleði og fyllingu, hversvegna að borða snakkið og snickersið? Ég held að maður gleymi sér bara, það er svo mikill vani að teygja sig í eitthvað gamalkunnugt. Þannig að ég ætla að koma upp með eitthvað trix sem minnir mig á þessa vellíðan næst þegar ég ætla að graðga einhverja vitleysuna í mig. Slá í viðbeinin.

Í ofan á lag við mataræðið þá er mér líka farið að líða vel aftur í líkamanum hvað hreyfingu varðar. Ég er búin að hlaupa í vikunni hraðar og öruggar en ég hef verið að hlaupa núna lengi. Mér finnst eins og líkaminn sé að sýna mér þakklæti fyrir að fæða hann vel. Góð næring, gott hlaup. Elementary Watson. Þessi kraftur er reyndar líka að skila sér í að ég er með hálfgert óþol í mér við skrifstofuvinnuna. Mig langar til að vinna líkamlega vinnu. Datt reyndar ekkert í hug nema að verða annaðhvort skógarhöggsmaður eða hóra. Og þar sem ég get orðið rifið upp heilu trén með rótum með rassinum einum er tæpt á milli að sjá hvort starfið liggi betur fyrir mér.

Kickboxið fór reyndar ekki jafnvel og ég hafði vonast eftir, mér leist mjög illa á allt í því gymmi. En tek þann jákvæða punkt að ég var enn spenntari fyrir hópæfingum og er tilbúin til að fara að prófa gymmið sem var verið að opna í Wrexham. Þeir eru með svona BodyCombat og BodyAttack og Boxersise sem eru svona eróbikk/lightweight útgáfur af bardagaíþróttum. Og ég ætla núna að prófa þetta allt saman. Kick the shit outta summit.

Ég er spennt fyrir að prófa að vera með öðru fólki. Alveg frá upphafi hef ég gert þetta allt alveg ein, meira að segja þegar ég var hjá Röggu þá hitti ég hana aldrei, ég stjórnaði alveg hvað ég var að gera. Og ég hef aldrei látið stjórnina eða völdin í hendurnar á neinum öðrum og hef aldrei þurft að svara fyrir hvað ég er að gera. Allt veltur á mér. Mér datt þetta dálítið í hug út frá hlaupinu sem ég er að fara í núna á sunnudaginn, Race for Life. Hingað til þegar ég hef tekið þátt í skipulögðum hlaupum hef ég bara farið fyrir mig. Ég hef ekkert pælt í fjáröfluninni sem flest þessi hlaup eru gerð fyrir. Ég hef alltaf bara hugsað um sjálfa mig. Gert þetta fyrir eigin heilsu. En í þetta sinnið er ég búin að safna 40 pundum. Engin stjarnfræðileg upphæð en nóg til að ég get hugsað um hlaupið út frá stærra sjónarhorni en bara minni eigin heilsu; það að ég geti hreyft mig verður til þess að Cancer Research UK fá meiri pening til að rannsaka lækningu við brjóstakrabbameini. Það setur óneitanlega víðari vinkil á þetta og mér finnst eins og það að ég sé hraust hafi þar með merkingu fyrir ekki bara mig heldur líka fyrir heiminn sem ég lifi í. Og að það sé kominn tími fyrir mig að hafa það gaman saman.

Ég hef sagt það áður; vera í stuði og halda hópinn.

2 ummæli:

inspirationfreak sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Ingibjörg Torfa sagði...

Svona af því þú talar um snickers þá er þetta besta snickers í heimi og rosa gott að fá sér einn konfektbita með kaffinu :)

http://www.heilsuhusid.is/Uppskriftir/HraSnikcerskaka/