laugardagur, 23. júní 2012

Heimild
Þetta er heilagur sannleikur þessi teikning hér til hliðar. Ég hef verið að sannreyna þetta síðastliðin þrjú ár og ég held að núna í morgun hafi þessi sannleikur aldrei verið jafn skýr.

Ég gaf sjálfri mér ekki leyfi til að pæla í þessu of mikið í morgun áður en ég lagði af stað.Ef ég hefði hugsað um hvað ég var að fara að gera hefði ég örugglega hætt við. Ég vaknaði, klæddi mig í hlaupagallann og fór út. Fyrsta hlaup og hittingur hópsins sem vonandi verður upphafið að Parkrun í Wrexham átti að vera í Borras sem er hverfi sem ég þekki lítið. Ég þurfti þessvegna að bæta enn einu við óþægindin: að taka strætó eitthvað sem ég hafði aldrei komið áður og eiga á hættu að villast. Ég var heilmikið stressuð, hvað ef ég gæti ekki haldið í við þau, hvað ef þetta væri eitthvað glatað eins og kickboxing tilraunin, hvað ef það mætti enginn, hvað ef, hvað ef. Ég fann rétta strætóinn og bílstjórinn var undarlega hjálplegur og sagðist myndi stoppa þegar við værum komin á réttan stað í Borras. Þegar þangað var komið benti hann mér í rétta átt og brosti til mín. Mjög óvanalegt, hér eru strætóbílstjórar vanalega afsprengi djöfulsins.

Borras er ljómandi fallegt hverfi með stórum einbýlishúsum og þar er líka Acton Park, stór almenningsgarður þar sem við ætlum að hlaupa um. Hér býr greinilega fólk sem er betur stöndugt en bótapakkið sem býr allt í kringum mig í Rhos. Göturnar hreinar og fallegar og allir garðar vel snyrtir. Ég rölti aðeins um og þegar klukkan nálgaðist níu fór ég þangað sem átti að hittast. Þar hitti ég svo fyrir Darren og Angie sem eru þau sem ætla að koma Parkrun í gang. Þau eru bæði að æfa fyrir hálfmaraþon en eins og ég eru bara áhugafólk. Við spjölluðum aðeins saman og biðu smá eftir fleirum að bætast við. Bara ein stelpa kom í viðbót og við lögðum af stað. Hlupum á rólegheitahraða um Acton og Borras og spjölluðum. Angie og Darren hægðu heilmikið á sér til að leyfa mér og Jade að hafa í við þau. Það var bæði ánægjulegt og skrýtið að hlaupa með öðru fólki, þetta er svo ofboðslega persónulegt athæfi hjá mér vanalega. Ég var fegin inni í mér að það var ekki ég sem stjórnaði hæga hraðanum, ég hefði getað farið hraðar en Jade er algjör byrjandi og þurfti að fara hægt yfir. Þegar við vorum svo búin að fara 5 km enduðum við á kaffihúsi þar sem við lögðum á ráðin með hvað gerist næst. Við ætlum að byrja á að koma reglulegum 5 km hlaupum á þar sem fólk tímatekur sig bara sjálft og jafnvel reyna að halda bara hópinn svona eins og við gerðum í dag til að skapa hópkennd og samstöðu. Það bætist alltaf í hópinn á Facebook og Twitter og vonandi að fólk taki við sér og fari að koma með okkur á laugardagsmorgnum. Svo er það að fá Bæjinn með okkur í lið til að fá afnot af almenningsgarði til að hafa samastað. Parkrun gefur svo hjálp til að koma uppsetningunni af stað og hjálpar til með að gera tímatökuna ákveðna.

Svona eitthvað er bara af hinu góða fyrir bæ eins og Wrexham. Það er ekki Parkrun í neinum af bæjunum hér í kring, ekki einusinni í Chester og við gætum þessvegna dregið að fólk allstaðar að hér í kring. Hvað samfélagsanda og innlegg í heilsusamlegan lífstil  varðar er þetta náttúrulega bara jákvætt. Ég er upprifin og meira en tilbúin til að taka þátt og leggja mitt af mörkum. Hugsa sér hvað það er flott og jákvætt að vera hluti af hópnum sem kom Parkrun af stað í Wrexham!?

Þetta var algerlega það sem mig vantaði. Ég er spennt og kát og finnst eins og ég hafi eitthvað að vinna að núna. Algerlega frábært.

Engin ummæli: