mánudagur, 4. júní 2012

Sólin skein aftur í morgun eftir hellidembu síðustu daga. Við höfðum farið til Chester í gær til að sjá Rómverja  sýna bardagalistir en það var örlítið endasleppt vegna úrhellisins. Dagurinn engu að síður bráðskemmtilegur, við fórum bara út að borða og fengum fínan mat og drukk. Það er alltaf gaman í Chester, hvort sem rignir eða sól skín. Í morgun var hinsvegar planlagður dagur í Ty Mawr að sjá víkinga og kelta sýna hernaðarlistir. Þegar ég leit út og sá að dagurinn ætlaði að verða heitur og fallegur hugsaði ég með mér að það væri við hæfi að fá mér smoothie í morgunmat. Ég hafði hent inn í frysti um daginn banana sem var við það að skemmast og ég sá í hendi mér að það væri bráðsniðugt að prófa kókóshnetumjólk með banana. Náði í pokann úr frystiólfinu, sturtaði úr honum í smoothie makerinn um leið og ég hellti mjólkinni yfir og í sekúndubrotsuppljómun henti ég teskeið af maca dufti og nokkrum cacao nibs út í líka. Kveikti á tækinu og hellti svo í glas þegar allt var orðið blandað saman. Hellti í fallegt glas, horfði á sólina út um gluggann og tók gúlsopa. Og þvílíkur viðbjóður. Ég hef aldrei á ævinni smakkað annan eins hrylling. Þvílík vonbrigði. Ég horfði agndofa ofan í glasið. Hvað var að? Ég smakkaði kókósmjólkina, nei hún var í lagi. Ekkert að nibsunum og maca duftið fínt. Ég hellti ógeðinu í vaskinn, fékk mér brauðsneið og svo héldum við til Ty Mawr að sjá víkingana.

Eftir bráðskemmtilegan dag við að sjá víkinga og kelta berjast, fá að sjá handverk og prófa hjálma og vopn og taka þátt í einni orustu komum við heim og Lúkas bað um kjúklinganagga í kvöldmat. Og um leið og ég fór inn í frysti til að ná í naggana rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði sett þá í poka til að spara pláss í frystinum. Eins poka og bananann. Og þarna var bananapokinn. Ég hafði semsagt búið til svona líka fínan próteinsjeik í morgun, naggasmoothie. Það er nú meira sem maður er mikið "meat head"!

Nagga smoothie!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo kreyzí heilzufrík :-)
Knús
H

Inga Lilý sagði...

Hahahahaha - ég hló upphátt! :)