þriðjudagur, 28. ágúst 2012

Um daginn komst ég að því að ég væri alveg herfileg mannvera. Ég var að flakka um á netinu og las af áfergju blogg eftir blogg þar sem bloggarinn hafði tekið ákvörðun um að breyta lífi sínu í eitt sinn fyrir öll, og byrjaði svo að telja hitaeiningar/hlaupa/hætti að borða brauð/skipti um hugsunarhátt/byrjaði að lyfta/nota duft í staðinn fyrir mat/hætti að borða sykur/baðar sig upp úr morgundögginni og þar fram eftir götunum. Og lof og dýrð! þremur mánuðum seinna er allt spik horfið sem dögg fyrir sólu og lífið er dans á rósum að eilífu amen, fokk og enter. Og ég herptist öll saman af öfund og afbrýðissemi; afhverju virðist þetta ekki vera svona einfalt fyrir mig??????? (Um leið herptist ég saman af vonbrigðum með hversu mikil leiðindapíka ég er, hvernig dirfist ég að lesa það úr öllum þessum bloggum að þessir sigrar hafi verið einfaldir og auðveldir fyrir allt þetta fólk, ég veit að þetta er gífurleg vinna og ég á að vera glöð fyrir þeirra hönd og ekki vera öfundsjúk.)

En ég bara gat ekki stillt mig. Og ég þurfti að minna sjálfa mig á að öll tökum við á þessu á mismunandi hátt. Ég virðist ætla að taka heila öld í þetta. Ég er sveimhugi og verð fljótt leið á öllu þannig að ég þarf stanslaust að breyta til. Það þýðir að stundum er ég að gera hluti sem ekki virka. Eða þá að ég er bara að gera einhverja vitleysu. En hvað með það þó ég ætli að taka öld í þetta? Ég er enn að. Ég hef enn ekki gefist upp. Ég get kannski bara verið bloggarinn sem fólk les þegar það vill fá að vita að það er allt í lagi að ruglast alveg í ríminu og gera allskonar mistök og gera vitleysur og gera tilraunir sem virka ekki.Og halda svo bara áfram. Ég þarf alla vega ekki að öfunda sjálfa mig.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Þú ert frábær bloggari sem segir frá raunveruleikanum eins og hann er. Ég er viss um að hinir bloggararnir sem tala um hversu auðvelt þetta var, bara kviss bamm búmm, 30 kg farin, segja ekki frá hinni hliðinni; þegar þeir nenntu ómögulega fram úr til að æfa, þegar þeir duttu í snickersið osfrv.

Þú segir frá hlutunum eins og þeir eru og sýnir okkur hinum að það eru fleiri þarna úti eins og við, sem tökum af okkur 10 kg, bara til að fá 5 kg á okkur aftur þar sem við annað hvort nenntum þessu ekki lengur eða bara hreinlega urðum utan við okkur og föttuðum ekki að við værum komin í sama gamla farið aftur.

Enginn er fullkominn en þú ert svo dugleg að segja okkur frá baráttunum sem þú átt í á hverjum degi, rétt eins og við hin, að manni líður mun betur með manns eigin galla.

Haltu áfram þínu striki og ég er viss um að áður en við vitum af þá kviss bamm búmm verða 8 kg farin sem þú ætlar að taka af þér fyrir 10 km hlaupið! :)

Nafnlaus sagði...

ÉG elska bloggið þitt út af lífinu af því þú gefur ekki neina glansmynd af þessu brasi og gefur okkur hinum sem eru ekki byrjuð að baða okkur upp úr morgundögginni von og síðast en ekki síst gefur þú okkur RISA STÓRT HJÚKKET því þó að manni líði betur af því að hreyfa sig og borða hollt þá finnst mér það allavegana oft svo drullu erfitt og leiðinlegt. En á okkur dynur bara lofsöngur um veltingi í morgundögginni og þegar maður er búin að reyna og gera í marga mánuði en á enn svo langt í land að ná þessu alsælustigi þá er yndislegt að lesa bloggið þitt og sjá að það er bara ósköð eðlilegt að vera stundum skúli fúli

kv. Erla Guðrún