föstudagur, 14. september 2012

Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á hversu mikilvægt það er að setja sér markmið. Markmiðalaus ráfar maður bara um í tilgangsleysi, hvorki að koma né fara og maður getur sveiað sér upp á að hvorki gengur né rekur. Það er líka algerlega tilgangslaust að setja sér markmið sem ekki er hægt að mæla eða orða. Þannig sé ég lítið gagn í að segja "einn daginn ætla ég að klífa Kilimanjaro". Svo vaknar maður bara dag eftir dag með enga áætlun um hvernig maður ætlar upp fjallið. Og mest lítið gerist. En ef maður gerir áætlun sem segir td að fjóra daga í viku geri maður æfingar sem þjálfa upp fjallgöngufitness, planar inn reglulegar fjallgöngur, prófar að fara upp brekku eina helgina og svo upp lítið fjall þá næstu og byggir upp úthald þá ætti að vera líklegra að lokum standi maður við fjallsrætur Kilimanjaro með súrefniskút á bakinu og fulla tösku af hrökkbrauði.


"Ég ætla að gera það sem ég þarf að gera til að geta gert það sem ég vil gera."

Þetta er það sem ég rígheld í akkúrat núna. Ég er með markmið, skýrt og skilmerkt og er að vinna að því föstum höndum. Ég er svakalega fín og sæt og hraust svona eins og ég er við 90 kíló. En það er bara ekki það sem ég vil vera, ég vil vera 70 kíló og ennþá fínni, sætari og hraustari en ég er núna. Ég ætla því að gera það sem ég þarf að gera til að geta gert það sem ég vil gera. Ég finn nefnilega hvernig  það slaknar aðeins á sjálfstjórnarvöðvanum nú þegar helgin hellist yfir okkur en það er ekki samkvæmt markmiði og ég ætla ekki að láta undan. Ég er með plan.


Engin ummæli: