sunnudagur, 2. september 2012

Súper september heldur ótrauður áfram; mitt besta hlaup í langan tíma í morgun. Hlaup þar sem mér líður eins og ég sé við stjórnvölin, ég hafi yfirráðin yfir heilanum og leyfi líkamanum bara að gera og gera og gera án þess að smákrakkinn inni í mér sé grenjandi. Og ég því búin að krossa yfir tvær æfingar í september. Ég hef í hyggju að setja 14 svona krossa í viðbót í september og svo svipað í október og þá ætti ég að vera tilbúin í 10 km í Winsford.. Og inn á milli koma svo líka ketilbjöllur til að viðhalda styrk. Ég er í þvilíkri uppsveiflu.

Þetta er svarið við öllum spurningunum. Ég held að oftast vilji fólk fá að vita hvað það er sem heldur mér við efnið. Og ég er búin að rannsaka þetta fram og tilbaka. Ég er orðin nokkuð sannfærð um að ég sé búin "visualisation" tækni svona frá náttúrunnar hendi og það er eitthvað sem ég hef verið að nota og þróa í áratugi. Mér datt nefnilega í hug um daginn að bjartsýnisröndin mín er og hefur alltaf verið svoleiðis tæki. Ég get séð fyrir mér inni í mér logandi ljós bjartsýni og ég get hækkað ljósið og hitann sem frá henni stafar. Að undanförnu hef ég verið að leika mér að nota hitann frá bjartsýnisröndinni til að bræða spik. Og það virðist virka því ég hef lést um 2.4 kíló í þessari viku. Ég nota líka tækni sem jaðrar við að vera sjálfsdáleiðsla. Ég endurtek aftur og aftur setningar sem mér finnast hjálpa mér til að bæla niður sjálfseyðingarhvötin. Að auki er ég orðin helvíti lúnkin við að "finna tilfinninguna". Það er að segja ef ég er með heimþrá þá grenja ég bara og er með heimþrá. Ég veit nefnilega að ég drepst ekki úr heimþrá, sorgin líður hjá og það eina sem myndi gerast ef ég fengi mér nammi er að ég væri með heimþrá og samviskubit. Þetta er eitthvað sem er bæði erfitt og flókið og tekur áraraðir að geta gert og ég get þetta ekki alveg alltaf en oftar en ekki tekst mér þetta núna.
En ef ég á að svara spurningunni "hvernig heldurðu þér við efnið?" þá bendi ég á dagatalið hér að ofan. Skýrt og greinilegt markmið, markmið sem er mælanlegt og skipulagt, markmið sem ég get brotið niður í vikulegt plan, og get svo unnið markvisst að því. Þannig var ekki nóg fyrir mig að svona vagurt hugsa með mér að ég vildi "léttast meira." Það er bara ekki markmið sem segir mér nóg. Ég þurfti að setjast niður og mæla hvað ég hef í hyggju að grennast mikið meira og hvernig ég hef í hyggju að gera það. Svo þurfti ég að skrifa það niður viku fyrir viku með eins miklum smáatriðum og ég gat. Hluti af því var að komast aftur í 10km form. Eina leiðin að því var að setja sjálfri mér tímatakmark og svo sett prógram sem ég verð að fylgja eftir. Um leið og þetta er komið á blað þá fokkings fylgi ég planinu. Og það þýðir ekkert væl, maður bara gerir þetta. 

 Þess á milli skemmtir maður sér svo vel, fer í verslunarleiðangur til Liverpool og fær edamame og núðlur á Wagamama og fer svo til Chester daginn eftir og fær sér gommu af kjöti á brasilísku churrascaria. Lífið er bara gott.

Engin ummæli: