þriðjudagur, 2. október 2012

Ég lagði í hann til Kaupmannahafnar á föstudaginn og fór með EasyJet. Fyrir 60 pund og stutt flug frá Manchester til Kaupmannahafnar kemst maður í heimsókn til Hönnu í Nærum. Hún og hennar slekti eru höfðingjar heim að sækja og ég hefði fattað þetta fyrr hefði ég sjálfsagt komið aðra hverja helgi. Ferðalagið var auðvelt og ég hitti Hörpu á Kastrup þar sem hún kom frá Íslandi og saman tókum við svo lest til Skodsborg þar sem við hittum Hönnu. Ásta var þá þegar komin og Harpa B kom svo frá Stokkhólmi seinna um kvöldið. Hanna var búin að elda handa okkur fínasta kvöldmat sem við nutum saman. 

Þær systur útbjuggu görótta drykki langt fram eftir nóttu, það mikið að við komumst  aldrei út til að kanna næturlífið í Köben, sátum bara við hlátrasköll og læti langt fram eftir nóttu og öngruðum náboerne.

Morgunmatur var svo ekki af síðri endanum á laugardagsmorgninum,  nýbakaðar kornabollur og romm. 

Hanna fór svo með okkur til Kaupmannahafnar til að skoða okkur um og við byrjuðum í því sem ég myndi  kalla himnaríki; markaði sem selur gúrmet matvæli. Brauð, kruðerí, súkkulaði, vín, kjöt, krydd og annað. Þar hefði ég getað eytt deginum og mánaðarlaunum. Við fengum okkur að sjálfsögðu hefðbundna danska negrakossbollu. Allt svo fallegt og artisan.

Danir eru að sjálfsögðu þekktir fyrir að vera frjálslyndir og frjálslegir í meira lagi, svona dálítið eins og þessi ungi maður. 

Það þótti við hæfi að fá mynd við Nyhavn með danska fánann blaktandi við hún í baksýn. 

Slorgellur við kæjann. 

Þegar hér var komið við sögu var að sjálfsögðu kominn tími á smörrebröd en við vorum heldur seinar á ferðinni og öll hefðbundin smörrbröd hús búin að loka, Við fengum þá bara svona fínan frokost platta í staðinn og ekki var hann síðri. Rauðspretta, roastbeef og remúlaði og að allra allra mikilvægasta; Tuborg. 

Eftir að hafa látið Tuborgin sjatna aðeins fengum við svo irish coffee við höfnina. Eftir nokkra rigningu þóttumst  við heppnar með veðrið, ekta fallegt haustveður og írishinn hitaði það sem upp á vantaði. 

Við skoðuðum svo borgina, og hittum fyrir Kristján Tíunda, glapræðiskónginn sem glutraði Íslandi úr höndunum á sér. Spurning hvort við hefðum ekki bara verið betur stödd ef við værum danir.

Þeir passa líka voðalega vel upp á Margréti Þórhildi þessir kappar og kipptu sér ekki upp við nokkur dansspor fyrir utan Amelieborg. 

Eftir frekara rölt og skoðunarferð um Kristjaníu fórum við í kjöthverfið og á  ægilega skemmtilegan veitingastað  sem heitir Mother og fengum súrdeigspizzu. Þar sátum við svo langt fram eftir kveldi og löguðum öll heimsins vandamál. 

Á sunnudeginum fór Harpa B aftur heim til Stokkhólms eftir  morgunmat en við hinar lögðum af stað í hjólreiðatúr eins og sönnum dönum sæmir. Ég hef ekki stigið á hjól í allavega 10 ár og var örlítið smeyk til að byrja með en komst fljótt inn í stemninguna.

Við hjóluðum um Dyrehaven, til Tærbæk þar sem Hanna vinnur, sáum  dádýr  í skóginum ,  fórum á bryggjuna og sáum yfir til Svíþjóðar, stoppuðum á kaffihúsi, sáum allskonar fólk og hús og ég fann Danmörku. 

Hjólreiðamenningin er svo rótgróin að það var alger óþarfi fyrir mig að vera smeyk, hér er gert ráð fyrir hjólreiðafólki og það á að mörgu leyti til meiri rétt en aðrir í umferðinni. Ég komst líka fljótt inn í þetta og þrátt fyrir að hafa eytt um 5 tímum á hjólinu og ástandi sem fljótt fékk nafnið "pjöllusigg" var ég skælbrosandi eftir daginn. Mér fannst ég sjá svo mikið, ég var svo frjáls og ég var svo glöð að vera í svona góðu formi að geta gert þetta rétt sí svona. Enn og aftur var ég minnt á hversu dýrmæta gjöf ég gaf sjálfri mér þegar ég ákvað að breyta lífstílnum. 

Eftir kvöldmat fór Harpa svo heim til Íslands og við systur spiluðum á spil og spjölluðum enn meira. Ásta fór svo heim til London á mánudagsmorgni en ég og Hanna fórum í matvöruverlsun og ég náði mér í nokkuð af dönskum nauðsynjavorum. Rúgbrauð, lifrakæfu, rauðkál og remúlaði. Hver getur án þessa verið?

Ég fór svo með lest til Kastrup og þar fékk ég svo skandinavíska klassík í gjöf frá sjálfri mér; snyrtipung  frá Marimekko með Unikko mynstrinu. Ekki bagalegt að enda ferðina með það í poka. Ég er núna líka harðákveðin í að reyna að innleiða hingað til Bretlands örlítið af þessu náttúrulega hreysti sem Danir búa yfir, í samanburði virðist fólkið hér ósköp óheilbrigt í útliti. Ég sé fram á að byrja að baka rúgbrauð í lange baner til að koma bretum í betra form. 

Engin ummæli: