sunnudagur, 2. desember 2012

Í þessari viku söfnuðust rétt um 95 spikprik. Þegar ég lít tilbaka yfir vikuna þá er augljóst hvar ég hefði getað gert betur; ég hreyfði mig afskaplega lítið. Ef ég á að segja satt og rétt frá þá hef ég litlar afsakanir aðrar en að mér leiðist allt sem mér stendur til boða. Já, mér finnst allt sem ég geri leiðinlegt. Og því miður þá virðist spikprika söfnunin ekki orðið til að endurvekja hjá mér neina ástríðu hvað hreyfinguna varðar. Það að hætta að hlaupa virðist einhvernvegin hafa orðið til þess að mig bara langar ekki til að gera neitt.

Ég hugsaði mikið um hlaupin í dag. Fyrir ákkúrat ári síðan í dag tók ég þátt í fyrsta alvöru hlaupinu mínu, 10km Helena Tipping minningarhlaupinu hér í Wrexham. Ég gat ekki látið vera að kíkja tilbaka á færsluna sem ég skrifaði um hlaupið og þar segi ég eitthvað á þá leið að það skipti ekki máli þó ég hafi verið síðust í mark, ég hafi núna 12 mánuði til að léttast meira og verða fljótari tilbúin til að taka þátt að ári. Það fór ekki eins og planað var árið 2012. Mig langaði rosalega mikið til að verða sorgmædd yfir því að hafa ekki staðið við það sem ég sagðist ætla að gera. En ég ætla ekki að leyfa mér það. Ég er með ónýt hné. Ég get ekki hlaupið. Og ég verð bara að komast yfir það og finna mér eitthvað annað að gera sem vekur hjá mér sömu ástríðu. Og ég veit að þetta hljómar alltaf smávegis eins og afsökun en ég get ekki annað gert en að vera þakklát fyrir að annað ár er liðið og ég hef ekki fitnað af neinu marki. Ég nota enn buxurnar sem ég keypti í New Look síðasta desember og eru númer 14.

Það má vera að ég finni enn ekki leiðina til að léttast meira, en ég er bara svo þakklát að mér takist þó að lafa hér þar sem ég er. Já, ég er bara sátt.

Já, bara helvíti sátt við þetta allt saman. 


1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ótrúlega flott vika hjá þér kona, mátt alveg vera stolt af þér þrátt fyrir smááá græðgishugsanir á föstudag.

Mér finnst alveg merkilegt hvað við virðumst alltaf vera staddar á sama stað. Ég hef misst alla ástríðu fyrir hreyfingunni sem ég hafði áður og oftar en ekki sleppi ég því að fara út á morgnanna. Ef ég fer út þá geri ég allt með hangandi hendi.

Kilóin safnast á mig og ég er alveg lost.

En hei - þú ert alveg frábær fyrirmynd og það er svo gaman að sjá hvað þú ert úrræðagóð. Takk fyrir að deila allri reynslunni með okkur hinum svo við getum séð að við erum ekki aaaaleinar hér úti.

Bestu aðventukveðjur frá Japan