sunnudagur, 9. desember 2012

Mér datt í hug í dag að ég hef ekki sett niður hvernig velgengni lítur út í mínum huga. Þegar ég segist fá hin eða þessi mörg spikprik, þegar ég segist hafa átt "góðan" eða "slæman" dag, við hvað er ég að miða? Hver er velgengisstuðullinn minn?

Það er víst að flest okkar getum við litið tilbaka og fundið stað eða tímabil eða atvik eða ástand þar sem manni leið vel, þar sem við vorum hamingjusöm. Ég get nefnt ýmiskonar tímabil - árið mitt í Belgíu, atvik - þegar ég fyrst fékk Lúkas í fangið, stað - þegar ég setti lokahönd á nýja baðherbergið mitt, ástand - daglega lífið mitt með Dave. Og svo það sem hvað mest varðar bloggið - þegar ég hljóp fyrst 5 kílómetra, þegar ég komst fyrst í buxur númer 14. En málið er að að þessi vellíðan eða hamingja líður hjá. Við venjumst tilfinningunni og setjum okkur nýja viðmiðun. Það sem áður veitti hamingju er orðið normið og okkur vantar eitthvað meira. Við setjum okkur svo nýja stuðla; nú er ekki nóg að hlaupa 5 kílómetra, það þarf að komast 10 og buxur í 14 eru bara fyrir fitubollur, nú vantar að komast í númer 10.

Ég hugsaði um allt þetta þegar ég reyndi að setja fyrir mér velgengisstuðulinn minn. Góður dagur er dagur þar sem ég hreyfi mig, þar sem ég borða "hreinan" mat í magni sem lætur mér líða vel og þar sem ég læri eitthvað nýtt. Og mér datt í hug að ég er örugglega að fokka þetta fram og tilbaka ekki til að láta mér líða illa heldur til að hægja á velgengninni svo ég taki hana ekki sem sjálfsögðum hlut og geti notið alls hins góða lengur. Ef ég held sjálfri mér á tánum þá get ég í alvörunni notið velgengninnar þegar hún kemur. Og ég get notið hennar lengur. Ég tek engu sem gefnum hlut og ég geri mér grein fyrir að hamingja er líka undir því komin að hrista upp í hlutunum öðru hvoru.

Vikan endaði í 27 spikprikum, en engu að síður þá var þetta góður dagur samkvæmt mínum stuðli; ég lærði eitthvað nýtt.



1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert dásemdin ein að lesa. bkv Alda