miðvikudagur, 27. febrúar 2013

Mér finnst rosalega gaman að gera mig fína. Með lakkaðar neglur, plokkaðar augabrúnir og í háum hælum líður mér vel. Sem er ljómandi gott þar sem ég er í vinnu sem krefst þess að ég sé fín alla daga nema föstudaga þegar það er "casual Friday". En það krefst ægilegrar staðfestu og tíma og viðhafnar að vera fínn stanslaust og ég verð að viðurkenna að ég get aldrei haldið bjútí rútínunni uppi. Ég pússa og lakka neglurnar og dáist að þeim, tek jafnvel af mér lakkið og set nýtt lag en svo gleymi ég því. Og þremur dögum seinna er ég með hálflakk á annarri hvorri nögl og er druslulegri en ef ég hefði bara sleppt lakkinu.

Ég lét alveg fallast fyrir malinu í stelpunni í Clinique deildinni í Boots um daginn. Hún lét mig setjast niður, tók mig í mini make-over, sýndi mér hvað húðin á mér er hrikalega flögnuð, blettótt og alveg laus við öll andoxunarefni, og til að varna þessu öllu ásamt hrukkumynduninni, nuddaði hún mig með allskonar kremum, sápum og tóner þangað til að ég keypti allan pakkann af henni. Ég skjögraði svo út, með afskaplega létta pyngju, sannfærð um að ef ég nota ekki allt draslið þá hreinlega detti af mér andlitið fyrir fertugt. Hún æpti á eftir mér; "money back guarantee" og af einhverjum ástæðum situr það i mér. "Better skin or your money back". Ég er búin að nota sápuna, tónerinn, kremið og hitt kremið af trúarofsa núna í tæpa viku. Og ég ætla að skila öllu draslinu á morgun. Fyrir utan að hafa ekki hálftíma aflögu kvölds og morgna í verkið þá sé ég engan mun. Ég er alveg jafn sæt og ég var á fimmtudaginn.

Engin ummæli: