fimmtudagur, 7. mars 2013

Það er alltaf sama klandrið þetta að reyna að vera örlítið heilsusamlegur. Ég er núna búin að hjóla í og úr vinnu alla þessa viku og ég sé ekki annað en að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera. En. Bölvað vesen þetta með föt og málningu. Ég hef enga aðstöðu í vinnunni til að skipta um föt eða hafa mig til utan bara það sem ég get pukrast með svona inni á klósetti. Þannig að ég þarf helst að fara máluð og í vinnufötunum. Nú er ég búin að sannreyna að það er nánast útilokað því ég get ekki verið í venjulegum buxum, þær flækjast fyrir mér og ef ég krumpa þeim saman ofan í sokkana eru þær krumpaðar þegar ég kem í vinnu. Ég get illa hjólað í kjól, til þess er hjólið ekki nógu dömulegt. Ég er þessvegna búin að vera í leggings við smart peysur og fer svo í háa hæla þegar ég er komin í vinnuna. Ég er bara ekki leggings kona, og finnst ég vera að ýta vinnufatareglunni alveg í ystu mörk með þessu. Hárið er náttúrulega bara alveg út úr kú. Til að vera með hjálminn get ég eiginlega bara verið með lágt tagl eða fléttu. Toppurinn klessist allur niður og ég er alveg í vandræðum með mig allan daginn. Málningin hefur verið ókei svona þangað til í morgun. Það rigndi aðeins á leiðinni og það var svo þar sem ég sat í lestinni salíróleg að ég tók eftir spegilmynd minni í glugganum sem sýndi að ég var með maskarann lekinn niður á höku. Sérlega smart. 

Ég er allt of hégómagjörn til að vera tilbúin til að hætta að mála mig. Ég get sætt mig við að vera með hárið bara í snyrtilegu tagli, en fötin eru smá vandamál. Ég hef verið að prófa að fara í hjólagalla og skipta svo inni á  klósetti. Það er sjálfsagt það sem ég þarf að venjast á að gera en mér finnst það ekki skemmtilegt. Það er reyndar gott að hafa hjólagallann með til að fara í á heimleiðinni því hún er öll upp á mót og ég verð vel rauð í framan við áreynsluna. En mér fínnst erfitt að byrja vinnudaginn á að hlaupa inn á klósett og rífa mig úr og í, allt á fimm mínútum. 

En samt. Það er skemmtilegra að hjóla en það er leiðinlegt að vera asnalega klædd. 

Engin ummæli: