laugardagur, 1. júní 2013

Ég hef afskaplega lítinn áhuga á að grenja, gnísta tönnum eða rifa í hár mitt eða skegg. Að vera reið, sár og vond við sjálfa mig núna hefur engin áhrif. Og breytir ekki að ég er búin að þyngjast um 15 kiló síðan ég náði að verða léttust 86 kíló.

Þetta er allt saman voðalega skrýtið. Ég var svo viss um að ég væri búin að "ná" þessu. Ég hélt að ég væri búin að koma þessu öllu saman svo inn í eðlilegan feril að ég þyrfti ekki að pæla í þessu neitt frekar. Sko, ég vil nefnilega ekki vera í megrun. Og þessi sannfæring mín um að maður eigi ekki að vera í megrun stangaðist á við að ég var samt í megrun. Og ég get ekki annað en gert uppreisn.

Þegar manni er sagt að það þurfi bara að gera litlar breytingar, labba aðeins meira og sleppa einu og einu snickers þá er verið að ljúga að manni. Það að snúa við öllu sem maður trúir á og velur í hvert einasta skipti sem maður tekur ákvörðun er ekkert að gera smáar breytingar. Og þetta var mér ofviða. En svona er þetta bara. Ég er ekki tilbúin í að færa mig yfir í þetta ástand þar sem maður velur náttúrulega rétta kostinn. Ég þarf að halda áfram að vera í megrun. Akkúrat núna er ég líka bara sátt við það. Mig langar frekar að komast aftur í gallabuxurnar mínar sem eru númer 14 og vera í megrun en að vera ekki í megrun og halda áfram að fitna. Ég hef valið það að halda stríðinu áfram.

Mig langar ekkert frekar en að "lose the diet, love my body, find peace" og allt það en það er bara ekki að gerast. Ég er ekki sátt.

Ég er hinsvegar í stuði. Og það veit alltaf á gott.

3 ummæli:

Ella sagði...

Þetta er bara dulluerfið vinna fyrir okkur sem voru ekki forritaðar með þetta jafnvægi. Er sjálf búin að bæta á mig 18 kílóum á nákvæmlega einu ári og er núna þyngri en ég hef nokkurn tíman verið. Er samt rétt undir þriggja stafa tölunni og ætla ekki að fara yfir hana, þá er víst lítið annað að setja undir sig hausinn og fara í "megrun" !
Ætla líka að vera í stuði, við rúllum þessu upp :)

Nafnlaus sagði...

Elskan mín, skítur skeður... svona er bara lífið stundum, en þú getur þó huggað þig við það að lífið er ekki búið, þó þú sért núna búin að þyngjast áttu mörg mörg mörg ár eftir og þú getur lést og þyngst um tugi ef ekki hundruð kíló í viðbót :) Baráttan er ekki töpuð !
Þér til huggunar get ég sagt þér það að ég er líka búin að þyngjast.. til refsingar er ég búin að skrá mig í hálft maraþon - ég mun sjá eftir snickersinu þá :)

Kv. Gunnhildur

murta sagði...

Haha! Mikið hlakka ég til að léttast og þyngjast um tonn í viðbót ;) Og já, við höldum okkur bara í bjartsýninni.
S