laugardagur, 24. ágúst 2013

Tengdamamma mín borðar nánast engin kolvetni. Eftir að hafa verið í endalausri megrun árum saman, telja hitaeiningar, drekka hristinga, taka út fitu og það eina sem gerðist var að hún fitnaði meira, heyrði hún af Atkins kúrnum og ákvað að prófa. Og síðan eru liðin fimmtán ár, 42 kíló og hún enn kolvetnalaus. Hún tók þau niður í 5 grömm á dag til að byrja með og prófaði sig svo áfram þar til hún komst að magninu sem hentaði henni og hún hefur haldið sig við það síðan. Fimmtán ár og rétt um 25g af kolvetnum yfir daginn.

Hún borðar fullt af grænmeti, en ekki kartöflur, næpur eða rófur. Hún borðar ost en notar ekki mjólk. Hún borðar beikon en ekki brauð og hún snertir ekki ávexti. Hún sagði mér að hún hafði líka komist að þvi að þegar hún borðar of fá kolvetni þá þyngist hún. Þegar það gerist fær hún sér súkkulaði og réttir aftur úr sér. Merkilegt alveg hreint.

Það má sem sé vera að lágkolvetnalífstíllinn sé nýjasta æðið og að enginn sé maður með mönnum nema að eiga steviu, xanthan gum og möndlumjöl upp í skáp, en sannleikurinn er að hér er alls ekki um nýjan boðskap að ræða. Og ég hef fyrir framan mig fyrirmynd sem léttist um rúm 40 kíló og hefur haldið þeim af sér vandræðalaust í rúman áratug.

Ég er búin að vera að hugsa um þetta í langan tíma. Svo kom svo til fyrir um mánuði síðan að mamma byrjaði að fikra sig áfram í CarbNite fræðum og ég er búin að vera hugsa um þetta síðan.

Vandamálið er að ég var búin að sverja að ég myndi hætta þessu öllu saman. Hætta að rembast við að megrast og læra frekar að finnast ég fín eins og ég er og blah blah blah blah. En samblandið af því sem mamma segir mér og sönnunin sem ég hef í tengdó hefur kveikt í mér löngun til að prófa. Og síðan ég kom heim frá Spáni er ég búin að vera að fikra mig áfram með lágkolvetnalífstíl.

Ég er eiginlega bara dálitið hrædd við hvað ég er spennt. Ég er að prófa mig áfram með nýjar uppskriftir. Ég les allt sem ég finn mér til um fræðin. Ég er alltaf að verða spenntari og spenntari. Ég held nefnilega að í lágkolvetnalífstíllnum sé að finna allt sem þarf til að verða sannfærður, til að lifa af sannfæringu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ Svava

Alltaf gaman að kíkja við hjá þér. Ég hef ekki prófað lágkolvetnadæmið en hef aðeins verið að skoða það. Hér er íslensk síða sem er með ægilega girnilegum uppskriftum :-)

http://mariakristahreidarsdottir.blogspot.com/

kv
Sandra Dís