miðvikudagur, 4. september 2013

Ég er haldin þeirri áráttuhugsun að halda stanslaust að hlutirnir geti alltaf batnað. Það er í sjálfu sér svo sem ekkert vandamál, það þykir seint vont að vera bjartsýnn, en minn Akkilesarhæll er sá að mitt bjartsýni er ósköp hluttengt. Þannig hugsa ég mjög mikið að "ef þetta bara gerist þá yrði þetta hér svo miklu betra." Sem dæmi má nefna að ég hugsa oft með mér að ef ég bara væri mjó þá væri allt hitt svo miklu auðveldara. Oftast nær er þetta þó meira materíalískt. Þannig er ég þessa dagana algerlega sannfærð um að ef ég bara eignist þessi stígvél:

þá lagist fataskápurinn minn algerlega og ég breytist í óaðfinnanlega tískudrós (sem er líka flatbrjósta af einhverjum ástæðum). Mér þykir líklegt að ég fari um helgina og kaupi stígvélin. Ég finn það á mér að ég á ekki eftir að sitja róleg fyrr en ég er búin að eignast þau. Til þess eins að finna út að það eina, það einasta eina sem nú vantar er köflóttur kjóll. Eða eitthvað annað.

Á svipaðan hátt hef ég ekki getað á mér heillri tekið út af steviu leysinu. Ég hafði fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar ég fyrst sannfærðist um að sykur og hveit væri undirrót alls ills, beðið Ástu um að finna steviu, náttúrusykur, í stórborginni og senda mér. Sem hún og gerði. Og ég reyndi tvisvar eða þrisvar að nota en bara gat það allsekki vegna þess hversu ógeðslega vond stevian er á bragðið. Bara hreint ógeð. En nú þegar ég er í alvörunni að lifa eftir lágkolvetnalífstílnum kom stevian aftur inn. Allt "gervi" bakkelsið notar steviu til að ná sætubragðinu. Ég ákvað að ég hlyti bara að hafa verið eitthvað rugluð þegar ég síðast prófaði og pantaði flösku af vanillu steviu í fljótandi formi.

Ég er búin að bíða svo spennt. Allt mitt lágkolvetnalíf myndi umturnast með þessari litlu flösku! Sweet mama! Ef bara ég á steviu þá verður allt hitt í lagi. Þegar ég var svo loksins komin með gripinn í hendurnar rauk ég beint í að búa til avókadóbúðinginn minn. Venjulega myndi ég nota hlynsýróp en nú skyldi stevian sko blífa! Ég smellti búðing í skál, þakti með rjóma og sleikti svo skeiðina með áfergju. Og ekkert hefur breyst síðustu tvö árin. Stevia er enn algjört ógeð. Ógeð. Það vottar ekki fyrir sætubragði, einungis bitur gervibragð sem skilur eftir sig rammt munnvatn og geðstirðleika í sálinni.

Ég hef alltaf haft illan bifur á svona "substitute" matargerð. Og þetta var alveg til að sannfæra mig. Ef ég ætla að lifa án kolvetna, nú þá geri ég það bara. Ég venst því að vera sykurlaus. Og ef ég fríka út og fæ mér eitthvað sætt, þá ætla ég líka að passa mig á að það verði eitthvað sem er þess virði.

Mikið sem ég hlakka til að kaupa stígvélin. Ég verð svo mikil gella!

5 ummæli:

Unknown sagði...

Hæ Svava.

Ég hef líka gert margar tilraunir til þess að fíla Stevíu en get það bara alls ekki. Síðasta tilraun var einmitt með flösku af vanillu stevíu dropum sem ég endaði á að gefa:)

Hefuru prufað kókos sykur eða kókos síróp? Það á að vera mjög hollt og kókos sykur bragðast eins og púðursykur en ég hef ekki ennþá bragðað kókos sírópið.

Annars gaman að "sjá" þig enda ansi mörg ár síðan við sáumst síðast:)

Gangi þér vel
Knús
Mallý

S sagði...

Oh, ég er svo sammála þér með stevíuna.. algert ógeð! ég skil ekki hvað fólk sér við þetta.. :/

ég nota sem allra minnst af gervisætu - en það eina sem ég get ekki sleppt er torani-karamellusýrópið sem ég blanda út í hreina skyrið eða grísku jógúrtina til að fá gott bragð.. bara ogguponsu - og þá er allt betra :)

annars er ég eins og þú - ég stend enn í þeirri trú að það verði allt betra þegar ég verð mjó.. ég er pottþett á því að þá batni lífið á alla kanta.. ég vona að stígvélin þín sanni að við höfum rétt fyrir okkur! :)

Nafnlaus sagði...

Stevía er samt ekki gervisæta. Hún er náttúruleg

murta sagði...

Mallý! Gaman að heyra í þér :) Og já, ég er búin að nota pálmasykur í tvö ár eða svo... en málið er að sykur er sykur er sykur, alveg sama þó hann láti sem hann sé "hollari" en borðsykur.
Stígvélin verða komin í hús í vikunni!
Og ég sagði aldrei að stevia væri gervisæta, ég sagði að það væri gervibragð af henni :)





Unknown sagði...

Mér finnst sama bragð af Stevíu og aspartam og ég hef aldrei getað drukkið light drykki vegna aspartam bragðsins.

En það er líka hægt að búa til döðlu mauk og eiga í ískápnum:-)
Þú hefur kannski líka prufað það;-)

Annars hef ég verið mikið í hráfæðinu og er að gera mér "hráfæði súkkulaði framabraut"
:-)