sunnudagur, 8. september 2013

Hann Láki minn verður 10 ára núna í nóvember. Stundum finnst mér erfitt hvað hann er nú þegar orðinn mikill unglingur; þannig erum við foreldrar hans mjög oft "embarrassing" og hann mjög oft svarar beiðnum um hitt og þetta með hnussinu "can´t be bovvered". En hann er líka oft bara litli strákurinn minn sem safnar Halo köllum og vill enn láta mig láta sig fljúga. Við Dave erum reyndar ósköp klén sem foreldrar, ég held að við höfum tvisvar eða þrisvar eitthvað reynt að ala hann upp og það endaði alltaf með ósköpum. Við erum reyndar algerlega með lukkuna yfir okkur af því að hann virðist ósköp vel gerður frá náttúrunnar hendi, rólegur og kurteis og algerlega laus við mörg þau vandamál sem virðast vera svo algeng hjá börnum í dag. Þegar við foreldrar hans gerðum okkur grein fyrir því að hans raunveruleiki er svo ólíkur þeim sem við ólumst upp í varð þetta allt saman miklu auðveldara og við hættum að rembast þetta. Þó að við Dave eyddum allri okkar barnæsku með nefið í bókum þýðir það ekki að það sé eitthvað að Láka þó hann kjósi ekki að gera slíkt hið sama. Dave ólst upp með tvær sjónvarpsstöðvar, ég eina. Láki getur valið um 620. Auðvitað er hans daglega líf ólíkt barnæsku okkar tveggja. Fyrir utan menningarmismuninn á milli okkar. Og við leyfum honum þessvegna bara að þróa tölvukunnáttu og höfum litlar áhyggjur af skriffærni. Hann er fluglæs og klár í stærðfræði. Er það ekki nóg? Nei, við ákváðum að tilraunir til að þrýsta á hann uppeldisaðferðum sem voru gildar fyrir 30-40 árum væru ekki við hæfi lengur. Það er bara ekki hægt að bera okkar reynslu saman við hans og það eina sem við getum gert er að passa að hann viti hvað okkur finnst hann geðsjúklega flottur gæji og hvað við elskum hann mikið.

Eitt veldur mér þó örlitlu hugarangri. Mér finnst svo erfitt að útskýra fyrir honum að flest myndefni sem hann sér af stúlkum og konum í fjölmiðlum eur annað hvort brenglaðar fantasíur eða hreinlega rangar. Við horfðum á MTV um daginn og ég komst í heilmikið klandur með að reyna að stanslaust að kommenta á öll myndböndin; þú veist að svona kemur maður ekki fram við stelpur í alvörunni, er það ekki? Hann er líka búinn að pikka heilmikið upp og virðist kominn með hvolpavit því hann tilkynnir mér oft að hitt og þetta sé "sexual". Og að hann sé "embarrassed" og líði skringilega. Þrátt fyrir að vera glatað foreldri og hafa gefist upp á að ala hann upp svona per se þá er þetta eitt sem ég get ekki látið vera. Sonur minn á að vita hvað er rétt og hvað er rangt í samskiptum kynjanna.

Hann hefur líka gífurlegan áhuga á málefninu. Um daginn heimtaði hann að fá að vita af okkur Dave "exactly" hvernig börnin koma til. Ég útskýrði á vísindalegan hátt að karlmaðurinn stingi typpi inn i konuna til að koma sæðisfrumum í egg konunnar þar sem eggið og sæðið mynduðu svo barn. "Very interesting", segir hann að máli mínu loknu, "could you two demonstrate?" og bendir á okkur pabba sinn. Ég hélt ég myndi drepast úr hlátri. Vísindalegri skýringu hlyti að fylgja vísindaleg tilraun að hans mati.

Þetta er flókið mál. Verst að ég á ekki eintak af Sjafnaryndi sem hann getur bara stolist í svona eins og ég gerði í den til að læra á þetta allt saman svona sjálfur. Og best við þá bók eru fyrirsæturnar sem valda engum ranghugmyndum um hvernig mannslíkaminn lítur út og tvær flugur þar með slegnar í einu höggi og hann, eins og ég, getur verið feminískur pervert af hjartans lyst.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Hahahahaha ég hló upphátt! Skil ekkert í ykkur að hafa ekki "demonstrated" :)