þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Æfingasett morgunsins voru allt "push" æfingar; tvennskonar armbeygjur, herpressa og sitjandi dýfur. Ég er ógeðslega léleg í "push" æfingum. Þarf að gera þær allar með breytingum. Ég þyrfti helst að finna eitt af þessum "milljón armbeygjur á mánuði" prógrömmum til að fylgja svona meðfram hefðbundu æfingunum til að reyna að ná upp einhverjum styrk í örmum. Á meðan að ég puðaðist við þetta datt mér í hug hvað ég myndi gera ef ég vaknaði einn morguninn og væri bara mjó. (Rétt skal vera rétt, æfingin var of erfið til að gera, en breytingin sem ég gerði var of auðveld þannig að ég fékk voðalega lítið úr æfingunni, en hafði nógan tíma til að hugsa.)

Hvað myndi ég gera ef einn daginn væri þetta bara allt horfið? hugsaði ég. Ef það sem ég tel hafa verið minn myllustein, nokkuð bókstaflega, í þrjátíu ár væri bara ekki utan á mér lengur. Í fyrsta lagi held ég að það væri gífurlegur léttir. Og þá á ég við í hreinni merkingu þess orðs. Ég væri léttari á mér, ég myndi fara fram úr, fara niður stigann, klæða mig allt sársaukalaust. Allar hreyfingar yrðu svo miklu léttari. Í öðru lagi þá myndi ég kaupa mér dálitið mikið af fallegum fötum. Svo ætlaði ég að hugsa að ef ég væri mjó þá myndi ég vera líklegri til að klífa metorðastigann, vera skemmtilegri, taka þátt í öflugra félagslífi og að hárið á mér myndi glansa meira. En þetta var í örbrotssekúndustund. Og var ekki einu sinni alvöru hugsun, heldur meira svona leifar af því að finnast eins og ég ÆTTI að hugsa svona. Ég er nefnilega alveg læknuð af ranghugmyndunum um að allt lagist við að vera mjó.

Það var gífurlegur léttir að uppgötva að ég er alveg búin að ná þessum hluta. Að ég sé búin að leiðrétta þennan misskilning í heilanum  á mér.  Ef ég vil fá stöðuhækkun, nú þá geri ég eitthvað til að sýna yfirmönnum mínum að ég eigi það skilið. Ég borða ekki bara meira grænmeti. Ef ég vil eiga öflugra skemmtanalíf nú þá þigg ég fleiri boð um að gera hitt og þetta með nýju fólki, ég tek ekki bara fimm armbeygjur í viðbót. Þetta er svo augljóst þegar maður gefur ranghugmyndina loksins upp á bátinn.

Það eina sem eftir stendur er það sem er rétt og satt; ef ég vaknaði þvengmjó á morgun þá væri ég léttari. Það er í alvörunni allt og sumt. Basta.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

hvað er herpressa?

Ég hata líka armbeygjur og dýfur. Er komin með armbeygjuapp í símann til að reyna að bæta mig en það gengur hægt...

murta sagði...

military press http://www.youtube.com/watch?v=7RKCNKRExt8