laugardagur, 8. mars 2014

Nýja hjólinu mínu var stolið um daginn, að þessu sinni úr vinnunni. Skrifstofubyggingin mín er á stóru skrifstofusvæði, sem er lokað af og maður þarf að sýna passa til að komast inn. Hjólið var svo geymt í þartilgerðri hjólageymslu sem er hálflokuð, upplýst og með myndavélum beint að inngangnum. Og samt labbaði einhver drulluháleistur að hjólinu, tók og hjólaði út af svæðinu án þess að vera stöðvaður af öryggisvörðum. Vinnustaðurinn bætir það ekki, þar eru tilkynningar út um allt þess efnis að bílar og hjól eru þar á ábyrgð eiganda og tryggingarnar mínar ná ekki til hjóls sem er stolið utan heimilisins.

Ég þarf sem sagt aftur að fara og kaupa mér nýtt hjól. Það er mér alveg nauðsynlegt, sérstaklega til að komast í vinnuna en auðvitað líka til að fá örlitla hreyfingu. Ég verð bara algerlega vitlaus í skapinu við tilhugsunina um  að punga út öðrum 3-400 pundum fyrir nýju hjóli. Bara til að halda uppi heróínneyslu einhvers djöfulsins aumingja. Einvhers helvítis grjónapúngs sem getur ekki drullast til að fá sér vinnu. Það er liðin vika núna, vika þar sem ég þarf að hanga í strætó, mæta seint í vinnuna og finna hvernig lungun eru að missa þol. Og enn fæ ég mig ekki til að ná í nýtt hjól. Ég held að ekkert geri mig eins reiða og þetta að verða fyrir svona tjóni. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað mig langar til að gera við tussusnúðana sem tóku hjólin mín. Ég er svo reið.

Ég er að reyna að vera jákvæð. Ég þéna nóg til að eiga fyrir nýju hjóli. Ég er nógu hraust til að vera manneskja sem reiðir sig á hjólreiðar til að komast til vinnu. Það er helgi og ég get stússast við að skoða nýtt hjól og kannski verður nýja hjólið enn betra en hin.

Samt.

Mannfýlur.

2 ummæli:

Hanna sagði...

Drífðu þig bara í að kveðja gamla hjólið og út í búð að kaupa nýtt, bókfærðu svo bara pundin sem tussutittlingar eða þaðan af verra en leyfðu þeim ekki að halda þér frá hreyfingunni. Reiðin er líka fin orkustöð svo þú munt þjóta áfram eins og vindurinn ♡

murta sagði...

Búin að taka þínum vitru ráðum og skella mér á hjól. Og takk fyrir orðið tussutittlingar. Það mun vera í notkun héðan í frá :)