sunnudagur, 27. apríl 2014

Alla vikuna er ég búin að vera að gramsa í gegnum íþróttafataskúffuna mína - já, ótrúlegt en satt, ég á skúffu fulla af íþróttafötum. Sem er meira en ég get sagt um flestan annan fatnað. Hvað um það, gramsið hefur fært það heim sanninn um að öll íþróttafötin mín í téðri skúffu er of lítil, of slitin og götótt eða hafa þróað með sér sérlega aðlaðandi ilm sem getur einungis verið lýst sem þvegnum svita. Ég sá í hendi mér eftir síðustu viku þar sem ég lenti ekki einu sinni og ekki tvisvar í því að vera hálfkjánaleg við lyftingarnar út af gati á vandræðalegum stað á innanverðu læri eða því sem einungis getur verið lýst sem magabol að ég þyrfti eitthvað að taka til í skúffunni.

Ég er núna búin að flokka þetta til og sýnist að ég geti komist í gegnum viku án þess að þurfa að kaupa neitt nýtt. Nema reyndar skó. Ég hef alltaf bara notað hlaupaskóna mína i ræktinni, fer bara úr þeim þegar ég er að lyfta þungu. Það er nefnilega vont að lyfta í skóm eins og mínum sem eru svona mikið dúðaðir. En núna þegar ég er komin í svona kallarækt þar sem ég er bara ein á meðal allra þess steramassa finnst mér eitthvað skrýtið að rífa mig alltaf úr skónum á milli. Ég fór þessvegna í dag og varð mér úti um alvöru strigaskó. Þeir eru reyndar svo sætir að ég á örugglega bara eftir að vera í þeim við gallabuxur og litla sumarkjóla í allt sumar.


Engin ummæli: