mánudagur, 2. febrúar 2015

Ég er hætt að hætta. Ég ætla þess í stað að byrja að byrja. Í hvert sinn sem ég fríka út (á mánudögum, um mánaðarmót, áramót og á einstaka miðvikudögum) og ákveð að hætta að éta, hætta að borða sykur, hveiti, kolvetni, hætta að hlussast í sófanum, hætta að vera svona mikill aumingi nú þá fríka ég enn meira út og "síðasta kvöldmáltíðar hugsunin" tekur völdin. Og ég reyni að raða öllu sem tönn á festir í "síðasta sinn".
Það er greinlega bara rugl að hætta. Maður á miklu frekar að byrja. Byrja að hugsa vel um sjálfan sig. Byrja að plana fallega matseðla. Byrja að æfa. Það er miklu jákvæðara hugarfar og líklegra til árangurs.

Ég hef að sjálfsögðu eytt mestum mínum tíma í að velta fyrir mér hvað það er sem fer úrskeiðis. Hvað er það sem aðskilur þau okkur sem fitna bara aftur, alveg sama hversu mikið og skýrt maður var búin að "fatta" þetta allt og þau sem ná að halda spikinu af sér og í alvörunni umfaðma lífstílinn. Ég geri í raun ekki ráð fyrir að finna svarið, en tel engu að síður að bara það að halda hugsuninni lifandi haldi því litla taki sem ég hef þó á sjálfri mér hvað mataræði og hreyfingu varðar. Ég hef stundum ætlað að verða döpur yfir því að hafa glutrað þessu öllu svona úr höndunum á mér en ef ég á að segja rétt frá þá stendur það stutt yfir. Ég uppgötvaði nefnilega eitt um daginn sem hefur hresst mig heilmikið við. Þetta tímabil skildi nefnilega meira eftir sig en venjuleg tímabil þar sem ég fer í gífurlega megrun. Ég í alvörunni breyttist í þetta sinnið.

Ég get ekki hreyft mig á sama hátt út af brjósklosinu en ég verð samt að hreyfa mig, ég verð viðþolslaus ef ég get ekki reynt á mig á einhvern hátt. Líkaminn fær svona óþolstilfinningu. Það eitt heldur voninni við að ég smá saman komi þoli og þrótt aftur, jafnvel þó í breyttri mynd sem tekur tillit til brjóskloss. Þetta er nýtt. Ég man ekki eftir að hafa áður haft óþol eftir neinu nema að fá að vera í frið einhverstaðar með bók og nammi.
Það er líka oft sem ég finn að ég þrái ekkert heitar en hafragraut, eða eggjahvítuommilettu. Og þetta er allt jákvætt.

Ég ætla bara að byrja. Ég er jákvæð að upplagi. Það liggur í augum úti að jákvæða leiðin hlýtur að henta mér betur. Ég er að byrja.

4 ummæli:

Harpa Sif sagði...

Dásamlegt að sjá pistil frá þér aftur, var farin að sakna skrifa þinna. Finnst þetta góð hugsun, að byrja :)

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég glöð að sjá nýjan pistil... og ég er mjög hrifin af þessari pælingu. Ég ætla líka að byrja að byrja, það er eitthvað svo miklu jálvæðara.
mbk
Hrafnhildur

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá pistil frá þér aftur - hef kíkt öðru hvoru að tékka á þér og þínum skemmtilegu pælingum :)

Erla sagði...

Velkomin aftur, ég saknaði að lesa pistlana þína. baráttukveðjur, dyggur lesandi í gegnum árin.