miðvikudagur, 25. mars 2015

Þegar Guð var ungur, var enginn heimur...

Með hækkandi sól finn ég hvernig hamingjan er auðfundari. Mér finnst þetta satt best að segja skringlilegt, ég man ekki sérstaklega eftir því að veðrið hafi áður haft svona áhrif á vellíðan mína. En það er eitthvert orsakasamhengi núna á milli blíðunnar, hjólreiðanna og hamingjunnar. Þegar maður er glaður og ánægður verður allt auðveldara. Ég er þannig búin að hjóla þessa epísku leið mína úr vinnu fimm sinnum núna síðan ég fyrst lagði í það fyrir bara nokkrum dögum. Ferðalagið nánast orðið eðlilegt. En veitir mér líka ómælda gleði. Hamingja er ekki stanslaust ástand. Hamingja er meira svona eins og perlur af andartökum sem maður strengir saman á bandi. Núna þræði ég sólina, hjólið og allt sem því fylgir á hamingjuperlufestina mína og líður vel.

Með þessu fylgir líka nýfundinn kraftur til að láta mér líða vel annarstaðar. Ég er búin að vera allt of lengi núna í baráttuástandi, þar sem ég stend í þessu stríði mínu við mat. Þar sem matur er óvinurinn og hver máltíð, hver ákvörðun er slagsmál og allt er svo, svo, svo erfitt.  Málið er að ég nenni þessu stappi bara ekki lengur. Hver í alvörunni nennir að eyða tíma og orku í að berjast svona allan daginn? Ekki ég. Nei, það er í alvörunni kominn tími á að semja um frið. Ég elska mat. Ég vil eiga í ástarsambandi við mat, ekki í svona abusive sambandi. Ég hef aftur gefið sjálfri mér óskilyrt leyfi til að borða. 

Já, hamingjan. 


Engin ummæli: