mánudagur, 27. apríl 2015

Af reiði-og rassaköstum

Það kom að því að ég lenti í árekstri á hjólinu. Ég var á leið heim úr vinnu á fimmtudagskvöld og var komin til Wrexham þegar ég þarf að fara yfir hringtorg og eitthvert manngrey varð fyrir því að sjá mig ekki og rauk út á hringtorgið þar sem ég var hálfnuð yfir það. Ég smellti því hjóli og sjálfri mér nett inn í hliðina á bílnum, flaug svo í fallegum boga upp á húddið hvaðan ég rúllaði svo mjúklega á götuna. Þetta var á háannatíma og mikil umferð, bæði bílar og gangandi. Á eftir bílnum sem keyrði á mig var staddur af tilviljun slökkvilðsbíll sem stöðvaði alla umferð á meðan ég lá í götunni. Sjúkrahúsið er rétt við hornið og það var akkúrat læknir á rölti sem kom hlaupandi á staðinn æpandi "I´m a doctor!" og það myndaðist fljótt þéttur hringur af áhorfendum í kringum mig. Ég fann fljótlega að ég var ekki slösuð, bara smávegis í sjokki, en kunni ekki við annað en að láta sem ég væri við dauðans dyr svona til að valda engum áhorfendum vonbrigðum. Ég lá þessvegna grafkyrr á meðan læknirinn þuklaði á mér og tilkynnti svo múginum að ég væri ekki lömuð. Þegar sjúkrabíllinn kom svo á staðinn innan nokkurra mínútna urðu flestir frá að hverfa á meðan sjúkraliðarnir tjékkuðu á mér. Ég reyndi að virka dösuð og rugluð svona til að bæta upp að það voru engar blóðslettur eða brákuð bein en fann nú samt fyrir nokkrum vonbrigðum frá flestum viðstöddum. Löggan kom svo og rak flesta í burtu til að geta tekið skýrslu af mér og ökumanninum. 

Að öllu gamni slepptu þá var þetta heilmikið sjokk og ég grenjaði alla leiðina heim. Fór svo með strætó í vinnuna á föstudaginn en ákvað að ég þyrfti að drífa mig aftur í hnakkinn og fór í langan túr á laugardagsmorgun. Sem betur fer er ég ekki hrædd en þarf að taka aðeins á hvað ég er reið. Ég verð alveg vitlaus í skapinu þegar ökumenn bíla gera eitthvað smávægilegt sem ég dæmi sem óásættanlega hegðun gagnvart mér í umferðinni. Hjólamenningin hér er lítil sem engin og ökumenn kunna illa að díla við hjól í umferðinni. Og ég hjálpa litið til við að kynna gleðilegt samstarf hjólreiða og bíla ef ég er hjólandi um öskrandi ókvæðisorð að öllu og öllum. (Ber þar hæst við "Asshat" og "Dickwad") Ég verð víst að reyna að slaka aðeins á. 

Ég hef heldur engan áhuga á að verða "hjólreiðamaður", ég get ekki gert annað en að finnast eitthvað örlítið hallærislegt við að þröngva sér í lycragalla merktan Tour de France, setja upp "wrap around" sólgleraugu og loftnæman hjálm. Ég er ekki í tímatöku og ég er ekki í keppni. Það er ekki tilgangurinn að fjarlægja gleðina úr hjólreiðunum. Mér finnst einmitt bara svo æðislegt að geta sameinað það að komast í og úr vinnu ókeypis við að fá að njóta þess að hreyfa mig úti. Ég get ekki annað en fundist það vera forréttindi að hafa tækifæri til að gera þetta svona. Það að stunda það sem ég flokka sem "náttúrulega" hreyfingu (eitthvað sem fellur eðlilega inn í daglegt líf) er nefnilega mitt aðal keppikefli og er eitthvað sem mér finnst falla 100% inn í þessa lífsýn mína sem afneitar megrun og þvingunum en býður velkomið það að næra sig vel og hreyfa sig af hreinni gleði. 

Maður þarf bara að passa sig á að aka ekki í veg fyrir valtara og verð´ að klessu, ojbara. 

Engin ummæli: