laugardagur, 30. maí 2015

50 mílur

Ég er búin að skrá mig í svona hjóla"atburð". Ekki veit ég hvað maður kallar svona á íslensku. En hvað um það, ég mundi hvað það var gaman að æfa fyrir eitthvern sérstakan atburð þegar ég var að hlaupa og hvað það var svo gaman að taka þátt í svoleiðis. Ákvað því að reyna að svipast um eftir svoleiðis. Mér finnast hjólreiðamennirnir heldur mikið uppteknir af tímatökum og var eiginlega hætt við þegar Ég fann svo 50 mílna amatörvænan atburð í gegnum hjólagrúppuna sem ég hitti í Port Sunlight. Hugsaði með mér að þetta væri nú meira bara svona í gamni, eins og svo oft er þetta gert með fjáröflun í huga og meira svona til að skemmta sér en að liggja á einhverri brjálaðri tímatöku. Fyrir utan að ég er nú vön að fara þessa vegalengd orðið þegar ég fer báðar leiðir í og úr vinnu. Það var svo ekki fyrr en ég var búin að borga þáttökugjaldið að ég fattaði að ég fer rúma 50 kílómetra í vinnuna. En hér er um að ræða 50 mílur. Mílur og kílómetrar eru ekki það sama. 50 mílur eru rúmir 80 kílómetrar. 

Eftir að hafa fölnað aðeins hugsaði ég með mér að þetta væri bara hið besta mál. Þetta er ekki fyrr en 5. júlí þannig að ég hef núna mánuð til að æfa mig aðeins. Ég ætla þess vegna að drífa mig í að hitta hjólagrúppuna sem fer lengri leiðir en konugrúppan mín núna næst laugardag og fara lengra og hraðar með þeim. Svo setti ég svona meiri reglu á hvernig ég fylgi eftir daglegri rútínu hvað hjólreiðarnar varðar og svo lengi sem ég fylgi því nokkuð eftir ætti að vera í lagi með mig. 

Það er allt annað að hjóla en að hlaupa. Ég hefði aldrei skráð mig í 10 km hlaup með mánaðarfyrirvara. Ekki nema ég væri viss um að ég gæti hlaupið 10 km. En það er eitthvað þægilegra við hjólreiðarnar. Það er hægt að hjóla miklu lengur en maður getur hlaupið. Og það er hægt að hjóla miklu lengur en maður heldur.  Svo lengi sem maður passar að drekka vatn og rasssærið er ekki of mikið er hægt að krúsa endalaust. Ef brekkurnar eru viðráðanlegar. 

Það er bara voðalega gaman að hafa eitthvað svona til að stefna að og hlakka til. 

Engin ummæli: