fimmtudagur, 21. maí 2015

Af nýjabrumi

Fílelfd og fíldjörf fór ég í Waitrose eftir vinnu í gær og hnusaði um allan grænmetisgangana fram og tilbaka. Mig langaði til að elda eitthvað nýtt og óþekkt og á sama tíma sýna Dave hvað það er hægt að borða vel þó maður sé kannski jafnvel að passa upp á hitaeiningar eða næringarefni. Ég er fílelfd því ég finn það svo skýrt hvað það er rosalega gott að vinna innan svona ramma. Hann hefur ákveðið á meðan við bíðum eftir coeliac greiningunni að halda sig við ákveðið magn af hitaeiningum yfir daginn. Léttirinn sem ég fann þegar hann kom með þetta var svakalegur. Svo mikill að mér datt jafnvel í hug að ég hafði verið farin að þjást af ákvarðanaþreytu. Þegar maður hefur óskilyrt leyfi til að borða hvað sem er er líka fljótt að koma í lós við hverskonar ofngótt af mat við búum við. Það er svo mikið til af öllu, bæði af mat og allri neysluvöru að stundum verður maður bara ringlaður af öllu þessu drasli sem maður á að kaupa endalaust. Markaðsetning innan matvöruverlsana neyðir mann til að langa í allskonar vitleysu og það er ekki einu sinni bara matur og drasl sem er yfirþyrmandi; maður er eiginlega líka að drukkna í hverskonar upplýsingum á þessari gervihnattaöld

Stundum er bara gott að taka allt þetta val, taka allt þetta framboð af manni og fylgja bara settum reglum. Hvort sem það er að halda sig innan hitaeiningaramma, eða taka út heilu matarflokkana, eða allt kjöt, og þar fram eftir götunum. Maður hefur bara úr vissu að moða og öll ákvarðantaka verður einfaldari og auðveldari. Það þýðir samt ekki að maður hætti að gera tilraunir. 

Ég fann semsagt afskaplega ljóta rótarhnyðju í Waitrose og gekk út frá því að því ljótari því betri hlyti það að vera á bragðið. Keypti sem sagt celeriac rót, sem ég myndi þýða sem sellerírót á ástkæra ylhýra en get ekki alveg svarið fyrir það. Ég ákvað að byrja einfalt og hamfletti og kubbaði svo niður og sauð í mauk. Stappaði svo með smávegis smjéri og bauð upp á sem um kartöflumús væri að ræða. Mér þótti þetta óskaplega gott, kremað og létt, með örlitlum selleríkeim. Og kom alveg í staðinn fyrir músina. 

Og skildi mig eftir kampakáta; valmöguleiki innan ramma. Gæti ekki verið betra. 

Engin ummæli: