fimmtudagur, 2. júlí 2015

Af íþróttum í plúss

Ég eyddi helginni í sollinum í London og kom heim með mér einhverja bévítans óáran og lá nánast örend fyrri hluta vikunnar. Það var rosalega gaman í London, eins og alltaf, og ég prófaði þar að fara í spin tíma. Eitthvað sem ég hef aldrei prófað áður. Mér fannst það ægilega skemmtilegt og hef í hyggju að leita uppi slíka tíma hér í sveitinni. Það hefði verið betra að sleppa kvefpestinni þó því ég er náttúrulega á leið í hjólreiðakeppni núna á sunnudaginn og er ekkert búin að geta æft mig í vikunni í ofanálag við að vera hreinlega dálítið slöpp ennþá. 

Spin tíminn minnti mig reyndar á að ég á lítið sem ekkert af alvöru íþróttafötum. Flestir í tímanum voru í fínum íþróttafötum. Það er mér afskaplega mikilvægt að eiga rétta dótið, alveg sama hvað ég er að gera ég vil "look the part", fyrir utan að flest íþróttaföt eru hönnuð til að gera íþróttina ánægjulegri. Það er ekki bara töff að vera í spandex frá tám að  hvirfli, það er líka miklu þægilegra. Þannig að þetta er ekki bara kvabb um að vilja tolla í tískunni, mér er alveg sama þó skórnir eða gallinn sé úr tveggja ára gamalli línu og keyptur í Sports Direct fremur en beint frá Nike eða Adidas, en ég vil geta gert eins vel og hægt er og litið vel út á meðan. 

Það svíður því helvíti mikið að flest vel hönnuð íþróttaföt eru einungis hönnuð með núverandi íþróttafólk í huga. Það er ekki gert ráð fyrir okkur tilvonandi og upprennandi stjörnum. Hjólreiðarnar hafa sérstaklega leitt þetta í ljós. Þegar ég lyfti var allt í lagi að vera í víðum jogging buxum og hlírabol. Svo lengi sem ég átti góðan sporthaldara var í lagi með mig og ég gat verið nokkuð frambærileg. Þegar ég svo byrjaði að hlaupa var ég komin niður í 14-16 og gat auðveldlega keypt mér falleg og töff hlaupaföt án nokkurra sérstakra vandkvæða. En núna, þegar ég er aftur komin upp í 18-20 er ekki nokkur leið fyrir mig að fá á mig flotta hjólagalla. Hjólreiðar einfaldlega krefjast þess að maður klæði sig á vissan hátt til að ná sem bestum árangri og svo að túrinn sé sem ánægjulegastur. Þannig er líf mitt gjörbreytt eftir að ég eignaðist hjólabuxur með gelpúðum í klobba. 30 kílómetrar án gelsins eru núna óhugsandi. Sama gildir um að vera í einhverju sem heldur úti vatni og vindum en er á sama tíma ekki til að hefta hreyfingu eða læsa inni svita. Í ofanálag er ég líka að mæta í vinnu og þarf að að geta brotið allt saman auðveldlega niður í bakpoka. Ekki litlar kröfur hér. 

Roy Castle lungnakrabbameinsgóðgerðarsamtökin sem ég ætla að hjóla fyrir sendi mér þessa forláta hjólapeysu til að vera í á sunnudaginn. Hún er alveg ekta, úr dry wick efni, með litla hakann fyrir rennilásinn í hálsinn og síðari að aftan með handhægum vösum sem gera ráð fyrir að maður er hallandi fram á við. 

Þeir urðu líka glaðir við bón minni að senda stærsta númerið, 2XXL. 

Peysan er níðþröng á mér. Svo þröng að ég efast um að ég geti verið í henni. Sem gæti verið vandamál því hún á að þjóna sem keppnisnúmer og svo er þetta líka auglýsing fyrir góðgerðarsamtökin. 

Þetta er allt svo öfugsnúið. Nú veit ég að það eru raddir sem segja að það að hafa gínur í búðum í stærðum 14-16 sé aðeins til að hvetja fólk til að halda áfram að éta sér til óbóta, að það "lögleyfi" það að vera feitur, og kannski er þetta að selja ekki íþróttaföt í stórum stærðum sama taktíkin til að smána fólk til að reyna að grenna sig en sjálf veit ég að það virkar bara ekki. Ef smán og fyrirlitning virkaði þá værum við öll þvengmjó, það vita það allir. Nei, væri ekki nær að passa einmitt að bestu og flottustu íþróttafötin séu seld í stærstu stærðunum til að einmitt hvetja feitasta fólkið til að taka þátt? Það er nú víst nógu erfitt að drífa sig út í hreyfingu þó maður þurfi ekki  líka alltaf að vera í götóttum leggings og svefnbol af manninum sínum? 

Ég gúgglaði og það eru nokkur fyrirtæki sem auglýsa að þau framleiði og selji í stærðum, en meira að segja þau stoppa nokkurn vegin við 18 og nota sérstöðuna til að rukka helmingi meira fyrir. Sem er nú varla réttlátt.

Svo er reyndar möguleiki að ég hafi misskilið þetta alltsaman og það sé rétt og gott að ég troði mér í spandex þremur númerum of lítið svona svo aðrir geti séð alla dýrðina nánast óvarða og notað sem forvörn og hvatningu?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér var einu sinni bent á þessa síðu... Þú ert kannski búin að skoða hana? http://fatladattheback.com/womens
mbk
Hrafnhildur

murta sagði...

Takk Hrafnhildur, skoða þetta :)