miðvikudagur, 29. júlí 2015

Af þremur dögum

Þrír dagar á Íslandi eru ekki nóg. Þrír dagar með góðum vinum, flottum veitingastöðum, verslunarferð, brúðkaupi og megapartý eru ekki nóg. Mig vantaði þrjá daga í viðbót og aðallega til að vera með mömmu og pabba. Þrír dagar á Íslandi er allt of stutt.

Ég ruglaðist líka alveg í ríminu og gleymdi öllu. Kom heim og fattaði að ég var harðfisklaus. Hver fer eiginlega til Íslands og kemur tilbaka án þess að kaupa harðfisk? Ferðin sjálf var ovenjuleg af því að ég var eiginlega bara í Reykjavík, rétt skrapp til Þolló í tvo klukkutíma til að heilsa upp á afa. Sem þýddi að ég var bara að stússast hér og þar og gleymdi alveg að raða í mig lakkrís, flatkökum, súkkulaðirúsínum og pulsum með öllu. Sem er hið besta mál, gott að koma heim og finna að það er annað og mikilvægara en lakkrís.

En ég er hinsvegar búin að raða í mig síðan eg kom heim. Og það var ekki nema fyrir nokkrum dögum síðan að ég fann aftur jafnvægi og hætti að sjá sjálfa mig sem marglyttu. Það var eiginlega um leið og ég byrjaði aftur að hjóla. Af viti. Fyrstu vikuna var eg bara eitthvað að gaufast, fór bara á milli Wrexham og Rhos. En í þessari viku er ég aftur búin að gera þetta almennilega og hjóla alla leið fram og tilbaka, Wrexham til Chester. Einn túr og ég þéttist öll upp, verð stinn og sterk og glansandi hress. Þetta er allt í hausnum a mér, en skiptir öllu máli hvaðan vel -(eða van-) líðanin kemur? 

Mér var sterkt hugsað til þessa þegar eg las svo í vikunni grein sem segir að vísindamennhafi núna einangrað hormón sem stjórnar hungri og að fyrstu rannsóknir á músum sýna skýrt að mýsnar sem hafa þetta hormón stjórna mataræði sínu mun betur en þær sem ekki hafa hormónið. Ég er nefnilega ansi hrædd um að það skipti mig engu máli hvort ég geti stjórnað hungurtilfinningu. Ofát mitt, og flestra fitubolla sem ég þekki, stjórnast af eiginlega öllum öðrum þáttum en hungri. Ef ég væri einfaldlega alltaf svöng þá væri þetta ekkert mál. Þá myndi ég bara borða og verða södd og þar við sæti. Nei, því miður varð ég ekki uppnæm við þessar fréttir, ég sé ekki að þetta sé lausnin fyrir okkur sem erum með feita hugsun.

Ég á eftir að finna útúr þessu einn daginn. Ég hef fullt traust á sjálfri mér.

Engin ummæli: