þriðjudagur, 5. janúar 2016

Af marglyttum

Ég fór í ræktina í dag. Það er þó nokkur tími síðan ég gat síðast sagt þetta. Ég er búin að vera svona on/off ræktarrotta síðan rétt fyrir aldamót. Ég man nú ekki til að hafa stundað neina hreyfingu að ráði þegar ég bjó í Þorlákshöfn, einn og einn eróbikktími hjá mömmu og Önnu Lú í félagsheimilinu og svo bara skólasund. Og í menntó var ég eins mikill anti-sportisti og hægt var, öll hreyfing, fyrir utan dans á 22veimur, var geðsjúklega halló. Það var svo ekki fyrr en ég var í háskóla að ég prófaði að fara í rækt fyrst. Var hjá einkaþjálfara í stöð ekki langt frá Frostaskjóli, man ekki núna hvað hún hét. Ég gat labbað þangað þaðan sem ég bjó á Hringbraut. Ég var þar í tæpt ár og lyfti eins og moðerfokker og borðaði á sama tíma undir 1200 hitaeiningar á dag. Léttist um rúm 30 kíló og var geðveik skutla. Svo flutti ég og komst ekki í þá rækt lengur. Prófaði aðra rækt, svakalega lúxusrækt rétt við hótel Esju sem ég man heldur ekki hvað hét. Þar var Ásta mín nuddari og ræktin svo flott að maður gat farið í heitan pott eftir tækjatíma og Ásta og fleiri lærðir nuddarar komu og nudduðu á manni axlirnar. Þar hefði ég sjálfsagt haldið áfram hefði ekki komið upp á atriði sem skildi eftir ör á sálinni. Ræktin var svo fín að maður þurfti ekki einu sinni að koma með sundbol. Það hengu einfaldlega fullt af sundbolum á snögum við pottana sem maður mátti nota að vild. Eftir tíma einhverju sinni ákvað ég að nýta mér þetta og greip venjulegan svartan bol sem hékk þar á snaga. Hann var í smærra lagi en ekkert til að hafa áhyggjur af. Þegar ég kom svo upp úr pottinum stóð í búningsklefanum kona sem þá las fréttir á Stöð 2 að mig minnir, Bergþóra held ég að hún hafi heitið. Og hún var algerlega trítilóð af vonsku, gersamlega apeshit af því að ég hafði tekið sundbolinn hennar. Hún hafði semsagt hengt hann upp á snagana með sameiginlegu bolunum og ég tekið hann án þess að fatta. Hún stóð þarna öskrandi og gólandi um hvernig svona hlussa eins og ég dirfðist að taka sundbolinn, hann væri ónothæfur eftir að ég hafði teygt hann til með öllu þessu spiki og að ég væri búin að rústa fyrir henni deginum með því að vera svona viðbjóðslega feit. Ég gat ekkert gert nema beðist afsökunar á því að vera svona feit og boðist til að borga fyrir nýjan sundbol. Ég man að ég fékk reikningsnúmer hjá henni og þegar ég lagði inn á hana lét ég skrifa "fyrir óbætanlegan sálarskaða" á útskýringuna. Þetta atvik varð til að ég hrökklaðist úr ræktum í langan tíma. Mér fannst þetta vera sönnun á að þetta væri í alvörunni stríð, þetta væri feitir gegn mjóum, og að í þetta sinnið hafði þessa mjóa tussa unnið. 
Eftir þetta fór ég ekki í rækt á Íslandi. Flutti svo til Bretlands og það var svo þar sem ég fann það aftur hjá mér að fara í rækt. Það var eftir að hafa unnið upp kjark og þor með að hreyfa mig í tölvuleik hér heima. Ég var svo rosalega heppin að það var rækt í Lloyds þegar ég byrjaði þar. Pínkulítil og krúttleg rækt sem var rekin af yndislegri stelpu sem vissi ekkert betra en að hjálpa fólki að finna réttu hreyfinguna. Þar byrjaði ég að lyfta af alvöru, fylgdi fyrst bók en fékk svo að fara í fjarþjálfun hjá Röggu Nagla. Það var frábært og innsiglaði ást mina á járninu. Sú rækt var svo rifin niður og bílaplan byggt þar yfir. Bókstaflega "paved paradise and put up a parking lot!" 
Eftir það ráfaði ég um í villilöndum. Fór í Total fitness, sem var fínt en þeir fóru svo á hausinn. Svo reyndi ég ræktina í sundlauginni þar sem maður þurfti að fara í kynningu. Á meðan á kynningu stóð þóttist leiðbeinandinn ekki taka eftir mér, né svaraði spurningum, en eyddi tímanum í að strjúka rassinn á einni af ungu stúlkunum sem var á stigavélinni. Fokk that shit sagði ég og fór ekki aftur. Svo reyndi ég rækt sem var rekin í bílskúrnum hjá einhverju steratrölli og það var áhugavert en smávegis scary líka. Svo reyndi ég að fara í boxrækt en varð að hrökklast frá vegna þess að hún var í raun bara fyrir karlmenn og ég gat hvergi farið í sturtu eða á klósett. 
Ég var eiginlega bara búin að gefa rækt upp á bátinn. Ég hjólaði og hugsaði með mér að ég er og hef alltaf verið einyrki í þessu. En ég gat ekki hætt að hugsa að ég saknaði andrúmsloftsins sem fylgir góðri rækt. Þar sem allir eru að stefna að sama markmiðinu, þar sem maður er hamingjusamur og getur verið maður sjálfur. Og ég sakna þess að hitta fólk. Ég lét því slag standa og prófaði nýja rækt sem opnaði hér í Wrexham um daginn. Hugsaði svo með mér að mig langaði til að prófa eitthvað alveg nýtt og ekki bara lyfta heldur prófa tíma líka. Fór sem sagt í spin í morgun. Og það var geðveikt. Frá fyrstu stundu fann ég að hér væri gott að vera. Allir á fullu, allir tilbúnir að leiðbeina, allt hreint og bjart. Og það var svo gaman í timanum. Ég góla og gala í takt við tónlistina og tempóið á meðan rassherptir Bretarnir skíta á sig af vandræðalegheitum fyrir mína hönd. Greyin kunna ekki að vera í stuði. Og ég stóð mig eins og hetja, þetta var vinna en ekkert sem ég gat ekki haldið uppi. Hélt að ég væri seif og að ég væri kannski bara enn í nokkuð góðu formi. Fór svo í magaæfingatíma á eftir til að prófa. Og ég gat ekkert. Ekki rassgat. Lá bara eins og marglytta á gólfinu, baðaði út öllum öngum í angist og kvíða algerlega hjálparlaus. Fylgdist bara með hvernig spikið á mér hristist og skókst til. Ég ætlaði alveg að fara yfir um að hryllingi yfir þessu öllu saman þegar ég leit upp fattaði að ég þarf bara að fókusa á andlitið á mér, ég er nefnilega svo sæt. 
Ég er semsagt komin í ræktina aftur. Annar tími bókaður á morgun og planið að vinna í þessu marglyttu dæmi. Ég man hvað það var hrikalega gaman að vera stinn og sterk. Að hnykla vöðvana og dást ekki bara að fallegu andliti, heldur að sterkum, þjálfuðum líkama líka. 

Engin ummæli: