fimmtudagur, 25. febrúar 2016

Af stærsta lúsernum

Ég hef lengi haft ýmugust á sjónvarpsefninu The biggest loser. Af margvíslegum ástæðum; þátturinn er mannskemmandi, nútíma PT Barnum fríksjóv, notar skaðlegar ef ekki beinlega hættulegar aðferðir til fitutaps, lífslexíurnar eru einstaklega grunnhyggnar og hann elur á sjálfshatri í ofanálag við að skilja við keppendur með verri þekkingu en áður og undantekningalaus bæta þau öllu og meira á sig á innan við ári eftir að keppni lýkur. Staðreynd. Upprunalegir þjálfarar, Jillian Michaels og Bob Harper hafa bæði gagnrýnt forsendur þáttarins opinberlega. Ég varð því afskaplega sorgmædd þegar ég gerði mér grein fyrir að Ísland væri með þetta rugl í sjónvarpinu líka. En þegar ég gerði mér grein fyrir að annar þjálfarinn væri Evert Víglundsson var mér allri lokið. 
Fyrir all nokkuð mörgum árum leigði ég íbúð í Vesturbænum með tveimur kærum vinkonum. Ég var á fyrsta ári í háskólanum og var einstaklega kát. Við brölluðum heilmikið saman, áttum stóran hóp vina og það var mikið stuð og skemmtan í kringum okkur. Ég var heldur bosmamikil á þessum tíma, hef sjálfsagt verið um 120 kíló en get ekki sagt fyrir víst því ég vigtaði mig ekki á þessum árum. Það stöðvaði mig þó ekki í að skemmta mér og ég man ekki eftir að hafa haldið aftur af mér fyrir þær sakir að vera hlussa. 
Einhverju sinni sem oftar héldum við partý og sameiginleg vinkona kom með Evert með sér. Hann og vinur sem hann kom með voru báðir boðnir hjartanlega velkomnir eins og aðrir, more the merrier var fílósófían. Og ég hressust allra. Þegar á kvöldið leið fór ég inn í herbergið mitt til að ná í eitthvað þegar ég fann þar fyrir Evert og vin hans þar sem þeir voru að fara í gegnum fötin mín og hlógu sig máttausa að sirkústjöldunum. Og þegar ég spurði hver andskotinn gengi á fékk ég að heyra fullum hálsi hversu viðbjóðsleg ég væri, að ég væri meinsemd í augum hans og þjóðfélagsins og það eitt að horfa á mig fengi hann til að kúgast. Honum og viðhlæjanda var vísað úr partýinu en ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt með að ná upp stuðinu aftur. Þetta viðhorf særði óneitanlega. 
Ég er að vona að Evert hafi lært samúð, skilning, eða hvernig á að taka feitu fólki eins og það er; fólk. En ég er líka hrædd um að þegar maður er rotinn í gegn gerist ekkert nema eins og úldið epli í ávaxtaskál þá mengar maður út frá sér og allt í kringum sig. Ég get ekki hugsað annað en að feita fólkið sem er hjá honum í Biggest loser sé kennt að hata sjálft sig, að það sé viðbjóður og að það sé enginn valmöguleiki nema megrun eða dauði. Mér finnst það að láta þennan mann fá feitt fólk í þjálfun sé svipað og að senda nasista til að kenna í  barnaskóla í Jerúsalem. 

Ja hérna hér, rúm tuttugu ár liðin og ég finn þegar ég skrifa þetta hvernig ég verð reiðari og sorgmæddari við hvert orð. Orð hafa meiningu og þau bera ábyrgð. Ætli Evert muni þennan atburð jafn skýrt og ég? Og ætli að hann vegi og meti orðin sem hann notar við skjólstæðinga sína núna? 
Ég er búin að læra mjög mikið þessi ár sem hafa liðið síðan að þetta gerðist. Og oftast er ég fær um að nýta lífsreynsluna og lexíurnar til að koma að niðurstöðu eða úrlausn sem er ígrunduð og byggir á reynslu, samúð og kærleika í átt að samferðafólki mínu. En eitthvað við þennan atburð gerir það að verkum að allt það sem ég hef lært, allt það sem ég hef upplifað og allt það sem ég veit þurrkast út og ég verð bara aftur feita stelpan sem var niðurlægð af gegnumrotnum tussusnúði í partýi. Feita stelpan sem þurfti að taka á öllu sínu til að trúa ekki því sem drullusokkurinn sagði henni. 

Ég verð bara að vona að Evert hafi lært meira en ég og að honum hafi tekist að finna samúð og samkennd með öllu fólki, meira segja þeim sem eru ógeðslega feitir.

Engin ummæli: