miðvikudagur, 10. febrúar 2016

Þar small í gráfíkjunni

Ég hlustaði á sérlega skemmtilegan fyrirlestur á Radio 4 um heilsusamlegt líferni nú fyrir nokkru. Fyrirlesturinn þótti mér góður, sér í lagi fyrir þær sakir að ég, og fyrirlesarinn vorum sérstaklega sammála um nánast allt. Þetta heilsulíferni er allt orðið svo flókið og ruglingslegt fyrir utan að fylgja hinum og þessum tískustraumum í ofanálag við að heyra ráðleggingar sem stangast stöðugt á. Það er bara ekki fyrir venjulegt fólk að hafa við því hvað má og hvað má ekki gera hvað mat og hreyfingu varðar nú til dags. Þess vegna er bara best að hlusta ekki á neinn nema sjálfan sig og gera það bara sem hentar manni sjálfum best.  Hann lauk svo fyrirlestrinum á að útskýra hvað hann sæji sem markmiðið með að viðhalda góðri heilsu, hver skilgreining væri á að vera heilsuhraustur. ´´Þegar ég er 67 ára,´´ sagði hann, ´´vil ég enn getað dedúað vandlega við konuna mína. Ég vil horfa á konuna sem ég elska í eldhúsinu og segja við hana; Barbara, upp stigann með þig, ég ætla mér að eiga við þig á besta hátt.´´
Mér þótti þetta algerlega frábær skilgreining á hvað það er að vera heilsuhraustur og á sama tíma frábær innri ástæða til að viðhalda hreysti. Þegar maður spáir í því þá er gott kynlíf bara heilmikið góður stuðull til að mæla hvar maður er staddur hvað hreysti varðar. Það sýnir að maður er enn líkamlega hraustur og á sama tíma brennir það fullt af hitaeiningum þannig að það er upphafið og endirinn. Það er líka mælikvarði á andlega heilsu, á hvernig sambandi maður er í, hvað maður vill út úr lífinu. Þegar ég hugsa um það þá bara dettur mér ekkert í hug sem mér þykir áhugaverðara en að geta, og vilja, enn sofa hjá manninum mínum þegar ég er 67 ára. Að vera sæt, að passa í kjólinn, að geta setið á litlum stólum á barnaskólaleikritum, að geta hlaupið 10 kílómetra, að vera sársaukalaus, að geta spilað fótbolta við soninn. Allt þetta bliknar í samanburði við að vera nógu hraust og hress til að stunda kynlíf þegar ég er gömul. 
Það er aldeilis að það er upp á manni typpið. 

Engin ummæli: