laugardagur, 9. apríl 2016

Af mætti auglýsinga

Ég setti mér það sem markmið um áramótin að versla ekki einn einasta fatalepp í 12 mánuði. Og það er núna miður apríl og ég stend mig eins og hetja sko.
Það voru margþættar ástæður að baki þessu áramótaheiti. Mér blöskrar neyslan í nútímasamfélagi ásamt áganginum á auðlindir í samhengi við að blöskra eigin neysla. Ég verð bara að viðurkenna að ég er með svona netta þörf fyrir að versla. Mér líður bara betur þegar ég fer í búð og kaupi eitthvað. Skiptir litlu hvað er; föt, snyrtivörur eða matur, bara svo lengi sem ég kaupi eitthvað. Þegar ég svo tók föt úr jöfnunni setti ég samt fyrir sjálfa mig að ég mætti ekki bara kaupa meiri mat eða maskara. Nei, ég á að draga úr neyslu í alvörunni. Og í rúma þrjá mánuði er þetta búið að ganga eins og í draumi. Ég búin að ná í tvennar buxur úr gömlum kassa eftir því sem ég grennist en að öðru leyti teygjast fötin bara með mér. Og ég er líka búin að passa vel að kaupa ekki of mikinn mat, er enn alveg jafn meðvituð um að gera matarplan og nýta afganga og þessháttar.
Ég reyndar setti engar reglur um þetta. Hvað td gerist ef ég í alvörunni léttist um 20 kíló fyrir áramót. Eg gæti kannski verið í einhverjum kjólum sem ég nota núna en ég gæti ekki notað buxur þremur númerum of stórar. Og flokkast nærföt undir þetta? Hvað með skó? Má ég kaupa mér skó? Eða stuttbuxur í ræktina? Eru það "föt"? Ég hefði átt að hugsa þetta út og setja reglur. Sko, ég lenti nefnilega í atviki um daginn. Mamma sendi mér íslenskt glamúrmagasín til að lesa um daginn. Og á laugardagsmorgun sest ég niður með morgunsólina glampandi inn um gluggann og blaða í gegn um tímaritið og á meðan ég sötraði góðan kaffibolla. Ljúft. Á fyrstu blaðsíðu var auglýsing frá Farmers Market um sokka. Og áður en ég gat stunið upp "Gvuð blessi Ísland" var ég búin að gúggla Farmers Market, finna út að þeir sendu til útlanda, velja mér, og borga fyrir sokkapar. Booked it, paid, fucked off. Rétt sí sonna. Og um leið og ég ýtti á confirm payment mundi ég að ég kaupi ekki föt. Svona, svona, þetta eru bara ullarsokkar sagði ég við sjálfa mig. Það er svona eins og inniskór og það má, það verður að eiga innisokka í Bretlandi. Svo eru þeir líka svo þjóðlegir og ég er með svo mikla sorg í hjartanu út af Íslandi núna, þetta var meira svona eins og ástarjátning til Íslands en að kaupa föt. Og er ekki hjálplegt af mér að senda verðmæt pund í efnahagsastandið heima? Var þetta ekki bara göfugt góðverk fremur en að ég hafi ekki staðið við ætlunarverk? 
Ég er svona nokkurnvegin búin að réttlæta þetta fyrir mér, þetta eru bara sokkar. Og svo nú þegar réttlætingin er hafin er auðveldara fyrir mig að réttlæta kjólinn sem ég sá í Cos um daginn. Hvað er kjóll annað en léreftshula? Og er það í raun ekki bara lak? Og hvar í reglunum segir að ég megi ekki kaupa rúmföt?.....

Engin ummæli: