miðvikudagur, 11. maí 2016

Af því sem er ómögulegt

New York Times birti um daginn afskaplega áhugaverðar niðurstöður úr áralangri rannsókn á þáttakendum úr Biggest loser þáttaröðinni. Niðurstöðurnar eru, að mati vísindamannanna, sláandi. Það kom þeim ekki á óvart að brennslukerfi þeirra sem fara í megrun hægist niður, það er vitað mál. Það sem hinsvegar sló þá var staðreyndin að eftir því sem árin liðu og þáttakendur óhjákvæmilega bættu spikinu aftur á sig, þá lagfærist brennslukerfið ekki. Það heldur sér í svo lágri brennslu að meira að segja einn þáttakandinn getur núna borðað 800 hitaeiningum minna yfir daginn en aðrir menn af hans stærð og það bara til að viðhalda þyngd, ekki til að léttast! 
Sjálf er ég ekki hissa. Eftir rúm 30 ár í megrun geri ég mér fyllilega grein fyrir því að ég má borða mun minna en "venjulegt" fólk, og það bara til að viðhalda þyngd. Ekki einu sinni til að grennast, bara til að viðhalda. Það sem kom mér á óvart var hvernig greinin og niðurstöður rannsóknarinnar voru sett fram.  Hér er hrópað yfir húsþökum að við séum öll dæmd til að vera feit, að það sé tilgangslaust að reyna, að líkaminn sjálfur sé andsnúinn tilraunum til að léttast. Greinin vakti gífurlega athygli og var deilt mest af öllu greinum a vefnum á þriðjudag og flest kommentin, eitthvað um 3000, frá lesendum voru eitthvað á þá leið að "er núna hægt að hætta að "fat shame" okkur, þetta er ekki okkur að kenna." Og ég er auðvitað ekki hrifin af fat shaming en mér finnst fráleitt að taka þessu þannig að við séum bara dæmd í spikfangelsi.
Málið er nefnilega að ef maður les rannsóknirnar þá sýna þær hver á fætur annarri að ekkert af þessu skiptir máli. Fólk sem léttist mjög hratt fitnar ekki hraðar eða meira en þeir sem léttast hægt. Allir fitna að lokum aftur. Það skiptir líka litlu máli hvaða aðferð er notuð, engin kolvetni, fáar hitaeiningar, einn dagur af, einn á o.s.frv. Allir fitna að lokum aftur. Sama með hreyfingu, rannsóknir sýna að það skiptir litlu máli hvaða hreyfing er valin, lyftingar eða cardio, slow and steady eða hiit. Allir fitna að lokum aftur.
En það er ekki þar með sagt að við eigum bara að gefast upp. Það sem þarf að gerast er breyting á hugarfari gagnvart heilbrigðum lífstíl og tilgangnum með honum. Hvert lokamarkmiðið á að vera.
Kílóamissir er nefnilega minnsti þátturinn í heilbrigðu líferni. Og svo lengi sem við höldum áfram að einblína á vigtina sem eina stuðulinn í velgengni er rétt að maður getur bara gefist upp. En það er bara svo margt annað sem verður betra þegar smávegis hugsun er lögð í að hreyfa sig af einhverju marki og smávegis hugsun er lögð í að mennta sig um hvað er hollt og hvað er óhollt. Það skiptir afskaplega litlu máli hvort maður er fimm eða tíu kílóum of þungur ef maður getur synt, hjólað, labbað, hlaupið, leikið við börnin, gert húsverk og stundað kynlíf án þess að standa á öndinni (nema kannski þetta síðasta, þar má alveg missa andann). Lífsgæði eru ekki metin á vigtinni.
Annað er svo að það er líka full ástæða til að skoða hvað það er sem gerist við þyngdartap og ef ein afleiðingin er minnkuð brennsla þá hlýtur að vera full ástæða til að skoða hvort aðrar leiðir en megrun séu ekki réttari. Þarf ekki að skoða umhverfið, neysluna, efnin í því sem við köllum mat?
Þannig myndi ég líka byrja á næstu kynslóð. Besta leiðin til að léttast er að fitna ekki til að byrja með. Það er margsannað að það er mun erfiðara að létta sig því lengur sem maður er feitur. Ef það er of seint þá er afskaplega mikilvægt að fara ekki í megrun. Heldur líta í kringum sig og bæta svo frekar við en að taka út. Bæta við massa af grænmeti, fiski og flóknum kolvetnum. Sjá svo hvort óæskilega draslið detti ekki ósjálfrátt út. Bæta við hreyfingu. Sjá svo hvort óæskileg sófakartöfluhegðun hafi ekki minnkað ósjálfrátt. 
En aðal atriðið hlýtur bara að vera viðhorfið. Ef ég, sem er búin að berjast við þetta í rúm þrjátíu ár og er meðvituð um að baráttan er vonlaus, er samt sannfærð um að það sé betra að halda áfram en að gefst upp, þá hlýtur það að vera betri möguleikinn. Ég veit nefnilega að þegar ég borða fallegan mat, sem vekur áhuga minn og er hollur líður mér betur í bæði sál og líkama. Ekki vegna þess að ég er léttari heldur vegna þess að mér finnst ég vera léttari. Sama með hreyfingu. Þegar ég fer í ræktina vegna þess að ég er svo spennt að sjá hvort dagurinn í dag verður sá sem ég næ að dedda 100 kílóum, ekki til að léttast um einhver kíló, þá líður mér vel. Um leið og ég bæti við kröfunni um að verða 71 kíló hættir þetta að vera skemmtilegt.
Þetta snýst allt um viðhorf. Auðvitað er gaman að sjá kílóin hverfa. En það er ömurlegt þegar þau fara ekki og það verður bara að vera tilbúin með andlegt viðhorf til að tækla vonbrigðin þegar það óhjákvæmilega gerist.
Og það allra mikilvægasta er að láta sér líða vel, alltaf. Það má vera að ég sé lukkuleg að vera fædd með egó einu númeri of stórt. Þannig er ég td alveg sannfærð um að ef einhver stari á mig þá sé það vegna þess að ég er svo sæt. Mér skilst á öðru fólki að ef það stendur einhvern að því að stara þá sé gert ráð fyrir að það sé vegna þess að það sé eitthvað að. Skrýtið! En ég hef líka unnið í að láta mér líða vel. Ég hef reynt að finna fatastíl sem hentar og klæðir mig eins vel og hægt er alveg sama hvort ég sé feit eða mjó. Ég reyni að vera stanslaust forvitin og bæti þekkinguna hvað mat, uppskriftir og hreyfingu varðar. Ég tek tíma þar sem ég nýt þess að borða mat sem er ekki hollur. Ég tek tíma fyrir sjálfa mig og ég læt mér líða vel með að gera hluti eins og að lesa mér til um hitt og þetta eða hlusta á podcasts. Allt eitthvað sem gerir mig að betri manneskju. 
Ég hugsa stundum um tímann sem ég hef eytt í að reyna að verða mjó. Og ég get ekki sagt annað en að það hafi verið glataður tími, tími eytt í áhyggjur og frústrasjón og vonleysi. Og ég fæ hann aldrei til baka. En tíminn sem ég hef svo eytt í að betrumbæta heilsuna, verða hraustari, sterkari og meðvitaðri, það aftur á móti er tími sem er vel varið og ég hef fyllilega í hyggju að halda því áfram. Hvað svo sem rannsóknir sýna.
(Greinin sem greinir frá mismunandi rannsóknum um tilgangsleysi megrunarkúra er hér http://www.nytimes.com/2016/05/08/opinion/sunday/why-you-cant-lose-weight-on-a-diet.html )

3 ummæli:

Unknown sagði...

Er lausnin þá ekki tvíþætt?

1. Ekki fitna meira svo að þessi jafnvægispunktur, sem líkaminn leitast við að finna, færist ekki ofar (eins og gerist þegar maður fer í megrun og fitnar aftur).

2. Viðhalda vöðvamassanum sínum. Er það ekki eftir þrítugt sem hann fer að minnka um 1% ári eða álíka?

Hvað finnst þér?

murta sagði...

Báðir punktar réttir og mikilvægir. Hvort þeir séu "lausn" veit ég hinsvegar ekki, lausnin virðist sleipug :) Aðalatriðið að mínu mati er að skilgreina fyrir sjálfum sér hvað heilbrigði er og hvernig það lítur út í þínu lífi. Og vinna svo að því á þínum forsendum. Allt annað er fyrir annað fólk.

Nafnlaus sagði...

Mjög áhugaverð pæling.

Sammála því að lausnin sé að skilgreina sjálfur og finna út fyrir sig hvað virkar.
Er mjög skotin í þessu http://www.wellnessresources.com/weight/articles/the_five_rules_of_the_leptin_diet/ átti alltaf mjög erfitt með 6x á dag prógrömmin frá einkaþjálfurum.