fimmtudagur, 27. október 2016

Og algjört sökksess

Oprah Winfrey veldur mér ægilegu hugarangri. Ekki svona hún sjálf per se, en samt. Hún er holdgervingur þess sem má kalla Oprah paradox, eða Oprah þverstæðuna. Þverstæðan er að hér er kona sem hefur unnið hörðum höndum til að komast í mikla áhrifastöðu innan síns geira og allt sem hún gerir er gert afskaplega vel og af miklum metnaði. Það er ekki hægt að segja neitt um Opruh annað en að hún sé dugleg, vel gefin, hörð af sér, útsjónarsöm og sterk en samt hefur hún líka eytt síðustu 30 eða 40 árum í að berjast við að vera feit og mjó og feit og mjó. Og hún lætur spikið angra sig. Þverstæðan því tvíþætt í raun. Hversvegna lætur kona sem að öllu leyti flokkast sem sigurvegari, láta það fara í taugarnar á sér að vera feit? Og hversvegna nær kona sem að öllu öðru leyti er við stórnvölinn ekki stjórni á átinu? 
 Ég var beðin um að halda lítinn fyrirlestur í vinnunni um daginn. Ég hafði vakið athygli eins hátt setts manns og hann bað mig um að taka saman lítinn pistil og flytja svo fyrir nokkurn hóp áheyranda. Og þó ég segi sjálf frá þá tókst þetta alveg hreint með ágætum. Ég hef nefnilega fullvissuna um að vera virkilega flink við framsögn. Það er einfaldlega eitthvað sem ég geri afskaplega vel, finnst hrikalega skemmtilegt að gera og á auðvelt með. Svo mikið að ég myndi helst kjósa að vera fyrirlesari að atvinnu.
Mér datt svo í hug eftir á hvað það er gott að finna þetta sem maður er einfaldlega virkilega flinkur við. Og hvernig þessi vitneskja spilar inn í sjálfstraust. Mér datt svo reyndar líka í hug að kannski er það bara sjálfumglatt og sjálfhverft fólk eins og ég sem veit að það er flinkt við eitthvað. Allir aðrir kannski bara gera hluti án þess að spá í því. Ég allavega fyllist sjálfstrausti þegar mér tekst vel upp og fíleflist og geri síðan fleiri hluti vel.
Ég kýs svo að setja minn eiginn mælikvarða á hversu vel mér gengur í lífinu. Þannig kýs ég að telja bara upp hluti sem ég geri vel og nota þá sem mælistiku. Ég meira að segja tel sjálfa mig sem success sögu hvað spik varðar; ekki vegna þess að ég er ægilega mjó eftir að hafa verið ægilega feit, heldur vegna þess að ég er enn að hugsa, spá og spekúlera.
Hvað er það svo annars sem maður telur til þegar maður mælir velgengni? Er það launin sem maður vinnur inn, útlitið, makinn sem maður eignast eða ekki, draslið sem maður sankar að sér? Innri friður, samhyggja, vinafjöldi? Hvað myndi Oprah segja um sitt líf? Myndi hún segjast hafa verið sökksess? Eða myndi hún telja sjálfa sig sem failure af því hún borðar stundum of mikinn mat?

Engin ummæli: