föstudagur, 2. júní 2017

Af spiki. Alltaf af spiki.

Mér finnst "on this day" fítusinn á Facebook alveg frábær. Hér áður fyrr þurfti ég að skrolla í gegnum bloggið mitt til að minna mig á hvar ég var stödd á hinum og þessum tímabilum en nú smellir fésið þessu bara í fésið á manni daglega: "Sko! Þú varst að hlaupa í 10 km keppnishlaupum fyrir fimm árum!" Þú borðaðir engan sykur í tvo mánuði fyrir fjórum árum! Þú varst svo fitt og flott og sjáðu þig núna!!!" Eða þannig. Ég bjó kannski þetta síðasta til.

Ég er voðalega feit núna. Ég veit að það er allt afstætt, ég gæti farið enn lengra til baka á facebook og séð að ég var einhverntíman miklu feitari en ég er núna, en samt. Þessir gömlu hlaupastatusar eru alveg að fara með mig.

Þrátt fyrir allskonar tilraunir til að láta mér líða betur hefur lítið gengið í þá áttina. Þetta jafnvægi sem ég leita svo að er víðs fjarri núna. Þetta er tímabilið sem ég leita og leita að einhverju nýju, einhverju sem ég hef ekki reynt áður í svona örvæntingafullri afneitun á því sem ég veit að ég þarf að gera.

Undanfarið er ég aftur búin að reyna við Fat Acceptance. Það hringsólar nefnilega stanslaust í hausnum á mér hvað ef þetta er bara it? Hvað ef ég verð aldrei grönn? Ætla ég þá i alvörunni að eyða einni sekúndu lengur í að hafa áhyggjur af þessu? Hvað ef það er málið og ég verð alltaf feit. Er í alvörunni bara ekki betra þá að eyða tímanum í eitthvað annað? Það að vera feit svona per se veldur mér ekki áhyggjum, ég held að ég geti dílað við það nú þegar ég er orðin þetta gömul. Ég á aldrei eftir að upplifa að vera ung og grönn hvort eð er. En ég get ekki dílað við fylgifiskana við fituna. Þetta hvað það er óþægilegt nú þegar það er farið að vera heitt úti. Að vera sveitt á milli laga. Grindarbotnsvöðvarnir farnir að gefa sig aftur með tilheyrandi óþægindum. Hnén í stanslausum sársauka.

Það er ýmislegt sem angrar mig við það sem ég hef lesið mér til um fat acceptance. Ég er 100% með í að allir hafa tilverurétt, að það að dæma fólk eftir útliti sé ekki bara rangt og óréttlátt heldur sýnir það lélegt innræti þess sem dæmir. Ég er líka 100% með á rökfærslunni sem segir að það að vera feitur sé ekki merki um karakterbrest. Að við séum öll gölluð.  Ég er 100% með að feitar konur hætti að fela sig, að þær finni sinn stað í heiminum og biðjist ekki afsökunar á að það sé aðeins stærri staður.

Hitt er svo sem ég gúddera ekki. Ég meika ekki að flestar sem skrifa um fat acceptance tala um að þetta sé ekki þeim að kenna. Hormónar, hæg brennsla, genatík, skiptir ekki máli, engin segir að jú, þetta eru hitaeiningar inn, hitaeiningar út og ég borða einfaldlega of mikið. Ég vil að fólk taki ábyrgð á því. Ég er ekki að segja að það þýði að það að grennast sé eins einfalt og að borða minna, hreyfa sig meira. Ef svo væri þá værum við ekki feit. En ég vil að fólk viðurkenni að það skilji hvernig þetta virkar. Það skiptir þannig séð ekki máli, það að ég viðurkenni að ég sé feit vegna þess að ég borða of mikið. Það gerir ekki að verkum að ég grennist. En ég get heldur ekki hlustað á feita heimta að við séum elskuð eins og við erum og að við höfum rétt til að elska okkur eins og við erum án þess að taka ábyrgð á því hvernig við erum.

Það skiptir samt þannig séð ekki máli, bottom line er að það er nánast útilokað að grennast, skiptir þá í alvörunni máli að ég viðurkenni að það sé vegna þess að ég borða of mikið? Kannski er það vandamálið mitt? Ef ég væri sannfærð um að ég væri með arfgeng fitugen sem ég gæti ekki breytt væri ég betur í stakk búin til að gefa þessa endalausu baráttu upp á bátinn og gæti bara yppt öxlum og sagt ég er feit, ég er falleg, deal with it!

Kannski er ég bara öfundsjúk. Út í þessar konur sem eru hættar þessu stríði. Tilhugsunin um að líða svona í 40 ár í viðbót er satt best að segja ekki neitt til að hlakka til. Eins og Geneen Roth segir; "Helviti er að óska þess að vera einhverstaðar annarstaðar."

Ég á ekki í neinum erfiðleikum með sjálfsástina. Ég horfi í spegil og mér finnst ég bara sæt. Ég get meira að segja horft á líkama minn og verið ánægð. En ég get ekki komist yfir óþægindin. Ég get ekki gúdderað ónýt hné. Og þar stoppar fat acceptance fyrir mig. Ég skil ekki hvernig fat acceptance konur lifa með óþægindunum. Og sérstaklega ekki núna þegar ég veit hvað mér líður mikið betur þegar ég er léttari. Ég finn ekkert um það í fat acceptance skrifum. Ekkert sem segir mér hvernig maður lærir að elska nuddsár á lærum, undirbrjóstasvita og þvagleka.

Það er engin spurning um að það er betra að vera með heilbrigða sjálfsmynd og ég er alveg sannfærð um að það hrjáir mig ekki neitt. Þessvegna skil ég ekki hversvegna ég á svona erfitt með að hætta að ströggla við þetta og byrja bara að einbeita mér að einhverju sem skiptir í alvörunni máli í lífinu. Er ég bara að segjast vera með góða sjálfsmynd en í raun og veru eru fegurðarstaðlar nútímans svo fastir í mér að ég get ekki gefið þennan hundrað ára gamla draum um að vera mjó upp á bátinn.

Kannski að ég fari bara út að hjóla.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér varðandi fat accepatance - skil engan vegin hvernig er hægt að hundsa slæmar heilsufarsafleiðingar og skil enn minna hvernig er hægt að hlusta ekki á okkur feita fólkið sem segjum þetta sem hluta af okkar upplifun og veruleika. Sú upplifun er hundsuð á kostnað einhverrar hugsjónar um að allir eigi og megi vera eins og þeir eru eins og þetta geti ekki farið saman.

Að öðru, skelltu þér bara í magaermi (gastro sleeve) og núllstilltu þig, eftir ár muntu fagna og njóta þess að vera grennri og öflugri ... þér finnst greinilega ekki leiðinlegt að hreyfa þig og ert sterk og kraftmikil, pældí hvað þú værir orðin mössuð ef spikið væri ekki lengur að þvælast fyrir þér .....

murta sagði...

Ég gúgglaði gastric sleeve og það virðist heljarinnar aðgerð. Èg er svo hrædd við svoleiðis :( Geturðu sagt mér frá í meiri smáatriðum? Sendu mér tölvupóst ef þú getur, netfangið er í hafa samband linknum :)

Ella sagði...

Ég hugsa að ég myndi frekar skoða magaband (lap band) þar sem þú ert mjög dugleg að hreyfa þig og hefur náð umtalsverðum árangri sjálf. Slík aðgerð er mikið minna inngrip.

murta sagði...

Það var það sem ég var að hugsa Ella, magaband væri líklegast það sem ég myndi kjósa ef ég færi í inngripsaðgerð. Kannski að ég eigi að hugsa málið og láta af hrokanum gagnvart þessum aðgerðum? Þetta badabúmmbadabing svo er maður bara mjór er sbo sannarlega að lokka og laða akkúrat núna!

Ella sagði...

Ég er heilmikið búin að vera að lesa mér til um þetta magaband, varð eitthvað svo buguð um daginn og var alveg föst í að ég yrði líklega bara feit að eilífu og fór í kjölfarið að skoða þetta og ég segi sama og þú, ef ég myndi einhvern tíman velja inngrip þá væri það magaband. En ég er ekkert á leiðinni í það næstu árin, ætla fyrst að reyna aðeins meira sjálf og klára að eiga börn og svona. Er loksins dottin í smá gír núna og komin með bjartsýnina með mér í lið :)

Nafnlaus sagði...

Magaermin er örugg og virkar betur en magabandið en er ekki eins dramatísk og hjáveitan þar sem fólk missir oft B12 upptöku og fær aukaverkanir.
Þessi aðgerð er talin mun betri en hjáveitan og árangursríkari en bandið.

Hér er íslenska upplýsinga síðan en aðgerðirnar eru gerðar hér og i UK af þessum lækni skilst mér http://magaband.is/magaermi/

Þyngdartapið er ekki eins hratt og í hjáveitunni þar sem kg hrynja af en mun hraðara en í bandinu þar sem það er of hægt fyrir flesta sem eru óþolinmóðir og svo er þar um að ræða aðskotahlut sem þarf að stilla og vesenast með. Myndi aldrei fá mér band og hef ekki séð góðan árangur af því (en þekki bara tvo sem hafa fengið).

Ermin og bandið eru svipað dýrar en ég held ég myndi alltaf taka ermina. Þar virðist einnig vera einhver mekanismi sem minnkar hungur. hef séð ótrúlega góðan og frekar hraðan árangur.

Stundum er eina leiðin að fá svona inngrip til að núllstilla sig, því hreyfingin og mataræðið skilar bara x miklu þegar búið er að rústa brennslunni með dramatískum megrunaraðgerðum aftur og aftur.