miðvikudagur, 14. janúar 2004

Enn af spiki. Ég horfði á heimildarþátt í sjónverpinu í gær um konu sem minnti mig dálítið á mig. Hún var í svona krossferð til að skoða samfélagið og sjálfa sig og reyna að finna út úr því hvers vegna hún var feit. Samfélagið er náttúrulega hálf klikk, hér eru Macjónasar og Börger Kingar út um allt og allir bjóða upp á Jumbo size eða Mega size eða maxi size og við erum ekki útbúin þannig að við þolum allt þetta. Sætindi eru orðin svo auðveld að ná í en við hreyfum okkur ekkert á miðað við það sem fólk þurfti að hreyfa sig áður fyrr. Allt helst þetta í hendur til að skapa það offitu-heilbrigðisvandamál sem vestrænar þjóðir standa frammi fyrir í dag. Og allt stefnir í að við séum bara að verða feitari. Allir þessir megrunarkúrar og líkamsræktarstöðvar og við fitnum bara. Að fitna svona með öllum hinum er það sem ég kalla tilbúnar fitubollur. Fólk sem ætti að vera grannt, hefur alltaf verið það þangað til núna að skammtastærðirnar taka einfaldega yfir og fólk tútnar bara út. Ég er aftur á móti það sem ég vil flokka sem náttúrulega fitubollu; ég hef alltaf verið svona, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mömmu, Krístínar hjúkku og svo sjálfrar mín til að breyta astandinu, og ég væri sjálfsagt líka feit þó ég hefði fæðst í Eþíópíu. Konan í myndinni var líka svona náttúruleg bolla og ég skildi allt sem hún talaði um þangað til að kom að mögulegum útskýringum. Hún, eins og svo margir aðrir, talar um "comfort eating" þ.e. að borða til að fylla eithvað tómarúm í lífinu, borða af leiðindum, borða vegna þess að maður er óhamingjusamur og það er eitthvað að í sálinni. ég er núna búin að leita og leita að óhamingjunni, leiðindunum, vandamálinu sem gæti hafað komið þessu öllu af stað hjá mér og viðhaldið því svo. Og ég finn það bara ekki. Það hefur aldrei neitt verið að hjá mér. ég hef alltaf verið nokkuð ánægð með mitt og kát, það hefur aldrei neitt komið upp á sem ég hef ekki getað klórað mig fram úr, ég á yndislega fjölskyldu og góða vini, ég tel mig vera lukkunnar pamfíl á allan hátt og hef alltaf gert. Það eina sem ég get fundið er að mér finnst matur og súkkulað bara alveg ógeðslega gott og er svo "hedonistic" að ég hef alltaf bara gert það sem mér finnst gott. Það er útskýringin. Einfalt ekki satt?

Engin ummæli: