föstudagur, 2. janúar 2004

Stundum eru sum óhöpp betri en önnur það er nú alveg víst. Nú eru tvö óhöpp búin að gerast sem ég tek fagnandi. Mamma bauðst í dag til að senda okkur digi-vélina hennar af því að okkar er "crap" eins og enskir myndu segja. Kemur það í beinu framhaldi af snúrubræðingnum á okkar vél. Ég get því vonandi farið að taka góðar myndir af Láka sem allir geta séð og notið. Ég verð nefnilega bara að segja það að ég er eiginlega alveg í mínus yfir því að enginn sér fallega strákinn minn. Og hann sem er alveg það besta sem ég hef gert hingað til.
Hitt óhappið varð svo í gær þegar, guði sé lof, Dave braut loksins gleraugun sín og neyddist til að fara og kaupa ný. (Sem ég fékk að velja og eru æðisleg og hann er svo sætur.) Ef einhver er í vafa um að það hafi verið kominn tími á ný gleraugu þá get ég bara sagt að hann gekk um með á nefinu það sem ég kalla GunnarsMásgleraugu. Þeir sem vita um hvað ég er að tala eru sjálfsagt sammála mér í að það hafi verið kominn tími á ný. Svona kemur alltaf eitthvað gott úr því sem upphaflega virtist ekki vera af hinu góða.

Engin ummæli: