þriðjudagur, 17. nóvember 2009


Á leið okkar Láka í skólann í morgun löbbuðum við framhjá bekkjarsystur hans þar sem hún stóð með móður sinni fyrir utan Spar verlsunina hér á Market Street. Móðirin hafði greinilega ekki skipulagt vikuna (eins og sumir) og þurft að stoppa við í búðinni til að kaupa í nestisbox stelpunnar. Sem er gott og blessað, það geta ekki allir verið með svona gríðarlega skipulagshæfileika (eins og sumir). Það sem verra var að í boxið fór einn snakkpoki með ostabragði (svona fyrir trefjarnar), ein dós af Fanta (örugglega sneisafullt af c-vítamíni), "sausage roll" smjördeig utan um svínahakk og fitu (fínn prótein skammtur) og eitt tvöfalt Milky Way (er mjólkursúkkulaði ekki rómað fyrir kalk innihald?) Þetta er glæsilegur hádegismatur fyrir 6 ára gamla stelpu. Og hún er sko ekki sú eina sem fær svona í bitaboxið sitt. Nú er ég allsekki að segja að Láki borði hollann og góðan mat. Hann eiginlega bara borðar ekki neitt. Og ég er búin að gefast upp. Að því leytinu til að ég er hætt að neyða mat ofan í hann og ég er hætt að vera með tárin í augunum yfir þessu. Hann er með náttúrulegan stoppara í sér og bara virðist ekki þurfa að borða mikið. Svo smá saman bætist alltaf meira við í safnið. Og ég þekki fólk sem var orðið yfir tvítugt þegar það loksins fékkst til að smakka t.d. lauk og sveppi. En ég neita líka alveg að gefa honum svona í nestisboxið. Ég fæ frekar eplið og bananann óétið heim daglega. Ég man að mér fannst ég alltaf vera eina feita barnið í skólanum mínum, og svo þegar ég eldist og var kannski ekki sú eina sem var feit þá var ég allavega alltaf sú feitasta. Mér sýnist að börn í dag þurfi sko ekki að hafa áhyggjur af því að vera sá eða sú eina feita, þau eiga öll eftir að vera rorrandi um í spiki. Sem náttúrulega eru frábærar frábærar fréttir fyrir mig, því eftir því sem aðrir verða feitari virka ég mjórri þannig að ég segji sko bring it on! Minn tími er kominn!

4 ummæli:

Hanna sagði...

"rorrandi um í spiki" - þetta finnst mér skemmtilegt orðalag.

En mikið er ég sammála þér með nestið, ég bý sem betur fer í rúgbrauðslandi og það bjargar ýmsu. En það eru samt aumingjans börn sem bara fá franskbrauð m. sultu og kindersnitte (helv.... sælgætið sem liggur frammi í mjólkurkælinum eins og hver önnur mjólkurvara.

Mitt problem i þessu nestisbaráttu er þó aðallega að ég varla orðið sett neitt álegg á brauðið því það er allt saman sneisafullt af salti, bragðaukandi efnum, rotvarnarefnum og öðrum viðbjóð. Er ekki lengur á þeirri skoðun að ein þunn mjólkursúkkulaðiplata á rúgbrauðið er svo slæm.
Einhverjar góðar hugmyndir um álegg?

Knús smukke
H.

murta sagði...

Hmmm... Machteld sem er belgíski kennarinn sem ég gisti hjá hér fyrir nokkrum árum síðan átti tvær stelpur. Og á því heimili var borðað alveg svakalega hollur matur. Allt ferskt og búið til heima. Og öll fjölskyldan var fitt og falleg. Og af því að þau eru belgar og það er alveg eðlilegt þar þá fengu stelpurnar einmitt svona súkkulaði plötu ofan á súrdeigs brauðið sitt í nesti. Og svo ávexti og grænmeti með. Mér finnst það bara fínt, þetta snýst allt um að finna meðalveginn og gott súkkulaði er örugglega hollara en fitulaus krakkajógúrtdós með gervisætu og sýrópssteiktum nammiflögum ofan á! Minn vill ekkert á brauðið sitt, bara smjör, þannig að ég er alveg stúmm í áleggstegundum. Ég er bara glöð að hann er farinn að borða brauð með korni án þess að kvarta!

murta sagði...

PS Verð að taka fram að mamma mín setti aldrei svona gúmmelað í nestisboxið mitt, eins mikið ég hefði verið til í það! Ég sá algerlega um það sjálf að verða svona feit. Er bara svona spes.

Hanna sagði...

Þú hefur bara verið snemma farin að taka ábyrgð á eigin lífi ;-)