miðvikudagur, 23. júní 2010

Sumarhitinn hefur í för með sér meiri löngun í létta rétti og einfaldar tilfæringar í eldhúsinu. Ég bauð upp á tabbouleh í gær og í kvöld var það moussaka. Ég ferðast um allan heiminn í eldhúsinu. Moussakað tókst rosalega vel og þetta yndislega gríska bragð greinilegt með aubergine og oregano. Og fyrir rúmar 200 kalóríur í skammtinum er þetta ekki leiðinlegur fylgifiskur með grillaðri kjúklingabringu. Aubergine, courgette, paprikur og laukur grófskorið, saltað og piprað og smá ólívuolíu hellt yfir og svo inn í ofn í 25 mínútur. 100 g feta maukaður með gaffli og svo 200 g grísk jógúrt og 1 egg hrært saman við. Grænmetið tekið úr ofnum og dós af tómötum (hökkuðum) hellt yfir, kryddað með oregano og svo feta gumsinu hellt yfir. Aftur inn í ofn í 30 mín og svo bara hakka í sig! Venjulegt grískt moussaka er nú búið til með kjöti og sósan ofan á er búin til úr miklu fitumeira efni en núll prósent jógúrti en þegar maður er að telja kalóríur verður maður bara að bjarga sér!

Helst í fréttum er að ég er loksins búin að fá miða til Íslands. Vanalega er það tímaþröng sem varnar heimkomu en í þetta sinnið voru það gömlu, góðu blankheitin. Til að reyna að spara smávegis er Dave því miður kyrrsettur. Hann er ómögulegur yfir þessu, heldur að fólk fari að segja að hann vilji ekki koma en ég vona svo sannarlega að enginn haldi það. Launalækkunin mín þýðir einfaldlega að það er ekki úr miklu að moða sem stendur. Alla vega þangað til að ég fæ alvöru vinnu. Eða þangað til á laugardag þegar ég vinn lottóið. Og nú get ég farið að byrja að dreyma um Lindu Buff, flatkökur með hangikjöti, Appelsín og bragðaref... Og já, verslunarmannahelgi á Íslandi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

uhmmmm bragðarefur .... Nennirðu að panta einn fyrir mig með jarðaberjum, snickerskurli og lakkrís?

Knús
H