fimmtudagur, 28. apríl 2011

Í öllum þessum sumarhita (tsk tsk!) hefur aldeilis þurft að létta á hádegismatnum. Það hefur verið nauðsynlegt að fá sér eitthvað kalt og létt. Í gærkveldi lagði ég í létta marineringu eina dós af cannelini baunum. Blandaði saman teskeið af góðu sinnepi, matskeið af balsamic ediki, matskeið af grískri ólívuolíu og hálfri teskeið af hlynsýrópi. Ásamt smá salt og pipar. Og lagði svo skolaðar baunirnar þar í. Í morgun setti ég svo í nestiboxið góða lúku af spínati, nokkrar svartar ólífur, smávegis af þurrkuðum trönuberjum, gommu af marineruðum baunum og öggulítið af geitaosti. Smávegis grillaður kjúlli til hliðar og með sneið af spíruðu brauði var aldeilis gaman að taka upp nestiboxið í dag. Þetta var líka svo falleg salat, íðilgrænt spínatið, djúprauð berin, skjannahvítar ostadoppur, svartar ólívurnar. Svo, svo fallegt. Mmm.. ég gæti bara borðað þetta alveg upp á nýtt!

Engin ummæli: