fimmtudagur, 28. apríl 2011

Þegar lagt er að stað í breytingar á lífstíl er upplagt að setja sér markmið. En það getur líka verið allt of auðvelt að setja sér markmið sem hafa engan grundvöll í raunveruleikanum og það sem er mikilvægara, maður er ekki tilbúinn til að gera þær breytingar sem þarf svo til að viðhalda þessum markmiðum. Þannig er ekkert mál að segja að á mánudaginn ætla ég að hætta að borða mat, hlaupa maraþon í hverju hádegi og drekka laxerolíublandað vatn í lítravís. Þannig ætla ég að léttast um 20 kíló á tveimur mánuðum. En það verður að spyrja sjálfan sig hvort maður sé tilbúinn í að gera þessar breytingar og ef ekki, þá hvaða breytingar er maður sáttur við að gera. Maður verður að vilja að breytast en maður verður líka að setja raunhæfar væntingar og kröfur til sjálfs sín um þetta allt saman. Mitt upprunalega takmark var að léttast um 50 kíló. Til þess að ná því takmarki var augljóst að ég þurfti að breyta ýmsu. Og ég sá líka að það var ekki nóg að gera litlar breytingar; ef það hefði verið nóg fyrir mig að "skipta út einu súkkulaðistykki á dag fyrir hollan ávöxt" þá hefði ég bara gert það. (Að gefa offitusjúklingi það ráð fer reyndar rosalega í mig; ekki veit ég til þess að ég hafi nokkurn tíman borðað eitt súkkulaðistykki á dag; annaðhvort borðaði ég ekkert eða ég borðaði fjögur, sem hollráð virkar þetta ekki fyrir hardcore hlussur eins og mig, en það er annar pistill) Og ég var tilbúin til að gera hitt og þetta. Ég var tilbúin til að sofa minna, horfa minna á sjónvarp, lesa færri bækur til að búa til tíma fyrir líkamsrækt. Ég var tilbúin til að taka sjálfa mig út úr þægindum fyrir líkamsrækt. Ég var tilbúin til að breyta um mataræði. Ég var tilbúin til að breyta hvernig ég umgengst mat. En ég er ekki tilbúin til að gefa allt sem mér finnst gott upp á bátinn. Ég er tilbúin til að fórna þyngdartapi öðru hvoru fyrir innantómar kalóríur. Og þegar ég gerði mér grein fyrir þessu var auðveldara að fylgja breytingunum eftir. Ég vil alls ekki meina að það sé auðvelt, þegar maður umturnar svona lífi sínu algerlega þá auðvitað fylgir því barátta. En þetta að gefa sjálfri mér tíma til að skoða hvað ég er tilbúin til að leggja á mig til að ná árangri, og viðurkenna hvað ég er ekki tilbúin til að gera, það er enn einn þátturinn í (nokkurnvegin) velgengni.

2 ummæli:

Sigrún Jana Finnbogadóttir sagði...

Mikið er gott og gaman að lesa færslurnar þínar. Þú ert algjörlega til fyrirmyndar.

Áfram þú (og við hin sem erum að reyna við lífstílsbreytinguna)!

murta sagði...

Húrra fyrir okkur öllum :)