sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí hlaup í sólskini.
Í dag er 1. Maí. (Til hamingju allir kommúnistar til sjávar og sveita.) Og ég hef þar með gert það sem ég lagði af stað með; að fara í gegnum Apríl sykurminni. Það kom í ljós að ég borða afskaplega lítinn unninn hvítan sykur svona dagsdaglega en helsta breytingin fólst í að ég hef ekki borðað ís eða nammi, eða kex eða köku þessa fjóra sunnudaga. Ég vaknaði ekki í morgun og rauk út í Co-Op til að kaupa ís og nammi. Það var engin rífandi þörf til að svala neinni sykurfíkn nú þegar ég hef aftur leyfi til að borða nammi. Ég sé eiginlega enga ástæðu til þess að vera eitthvað að fá mér ef mig langar ekkert sérstaklega í. Og ég ætla svo sannarlega að viðhalda þeirri tilfinningu eins lengi og kostur er á. En ég er líka búin að ákveða að þetta er of öfgakennt fyrir mig. Það að segja; "''Ég mun aldrei framar láta sælgæti, ís eða kökur inn fyrir mínar varir" samræmist ekki mér og mínum lífstíl. Og mér er eiginlega alveg sama ef þetta hljómar eins og "cop-out". Ég er mannleg og ég get ekki hugsað mér lífið án þess að fá mér nammi öðruhvoru og ég er það sjálfsörugg núna að ég veit  að ég ræð nokkurn vegin við dópið. Ég get dottið í það, skemmt mér konunglega og hætt daginn eftir. Ég þarf enga afréttara. Þetta er eflaust hroki og það má vera að ég breyti um skoðun einhverntíman en þetta er niðurstaðan núna.

Það er heldur ekki rétta afstaðan að skella skuldinni á sykurinn. Já, hann er ávanabindandi og það vita fáir betur en ég hver áhrifin eru. En málið er engu að síður það að sykurinn hefur engan sjálfstæðan vilja eða djöfullega áætlun um að troða sér ofan í kokið á manni. Að éta er ákvörðun sem ég tek sjálf og framkvæmi og það verður hreinlega að taka ábyrgð á því. Ég get ekki bara yppt öxlum og emjað út um fullan munninn "ég er fíkill, ég get ekki að þessu gert." Aftur smá hroki, en mér finnst að ég hafi unnið mér inn réttinn til að vera hrokafull hér; ég er búin að ganga í gegnum minn dimma dal.

Ég er 86.8 kíló núna, 100 g farin sem er ekkert meira en ég hefði búist við þær vikur sem ég borðaði ótæpilega af nammi á sunnudegi, aðeins minna ef eitthvað er. Ég bætti mér alltaf upp sparaðar kalóríur með hnetum, döðlum og meiri fitu. Líkamlega get ég ekki sagt að ég hafi fundið einhverjar ofurbreytingar, það er of margar breytur í myndinni til að ég geti sagt fyrir víst að góðu áhrifin séu sykurleysinu að þakka. En sálrænu áhrifin voru ómetanleg. Að komast að því hvað ég er fær um að gera, að ég er ekki viljalaust verkfæri í höndum djöfulsins skiptir mig öllu máli. Þetta er þekking og vitund sem á eftir að vera mér stoð í verkefninu fyrir lífstíð. Og ég hef bætt við enn einum þekkingarmolanum í safnið mitt.

4 ummæli:

Hanna sagði...

Stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt,stolt og enn meira stolt!!!

Erna Massi sagði...

Oh.. það er svo langt frá því að vera eitthvað cop-out að ætla ekki að útiloka ákveðinn mat að eilífu. Það þarf miklu meira sjálfstraust og hugrekki en að fara í ævilangt nammibindindi (sem mun springa í loft upp á endanum).

Þú ert rosaleg kona, alveg rosaleg!

murta sagði...

Batnandi manni er best að lifa og allt það. Takk fyrir xx

Nafnlaus sagði...

hahahahaha ég er svona "laumulesari" hjá þér.... hef mjög gaman af blogginu þínu og dáist að dugnaðinum.....

Þessi setning "Ég get ekki bara yppt öxlum og emjað út um fullan munninn "ég er fíkill, ég get ekki að þessu gert."" minnti mig svolítið á þetta grín http://www.youtube.com/watch?v=RXTq2_3LfXM hjá Rickey Gervais :))))

Snilldin ein! kíp öpp ðe gúd vörk :)

kveðja Hulda