mánudagur, 8. ágúst 2011

Ég er fyrst til að viðurkenna að pælingarnar mínar um spik og það sem því fylgir jaðrar við þráhyggju. Það er bara í svo miklu að pæla og ég verð nú líka að segja að það er skárra að velta sér upp úr pælingum en súkkulaði. Ég virðist líka dragast að pælingum annarra og af nóg er að taka. Það er sem allir hafi áhuga á spiki akkúrat núna. Ég horfði á heimildamynd í sjónvarpinu í gær um offitusjúklinga, fólk sem hafði náð að verða 500 kíló. Þátturinn var reyndar örlítið svona nútíma PT Barnum freak show, en engu að síður þá kom margt við kaunin á mér. Ég er sannfærð um að ef ég væri látin í friði þá gæti ég náð að verða 500 kíló. Ég hef alltaf séð það fyrir mér sem möguleika. Ég skil þetta fólk alveg. Ég get nefnilega borðað endalaust. Og það er sérstaklega þegar ég borða þegar ég er ekki svöng sem það er erfiðast að stoppa. Eins og að gatið sem ég er að reyna að fylla upp í stækki bara því meira sem ég borða. En það er reyndar líka einn munur á mér og fólkinu sem talað var við. Það neitar enn að taka ábyrgð á ástandinu. Öll töluðu þau um erfðaeiginleika, um hæga grunnbrennslu, um óheppni, um að "vera bara svona". Enginn vildi viðurkenna að borða fleiri hitaeiningar en brennt var. Hvernig stendur á þessu? Afhverju neitar fólk að játa ábyrgðina á því hvernig komið er fyrir? Nú skil ég 100% þessa þörf til að að borða. Og það er oft sem manni finnst eins og hún sé ekki viðráðanleg. En málið er að það er hægt að stoppa sjálfan sig af. Það þarf bara örlitla hörku og svo þarf maður að skilja að þegar maður borðar án þess að vera að svangur er mjög erfitt að stoppa. Það er nefnilega ekkert rými til að fylla upp í. (Sjá Geneen Roth, When you eat at the refrigerator, pull up a chair) Ég þrái jafn heitt og næsti maður að finna lausnina á þessu sem lætur einhvern annan vinna erfiðisverkið fyrir mig. Ég gúgla stanslaust "easy ways to lose weight!" og "miracle fat loss!" og "how to lose those last 20 pounds fast!". En þegar ég les smáa letrið þá er það alltaf það sama; ég þarf að borða minna en mig langar til. Það eru engar töfralausnir. Ég þarf að taka ábyrgðina og ég þarf að muna að stoppa við og spyrja sjálfa mig hvaða tómarými ég sé að reyna að fylla með súkkulaðinu. Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgðinni.

3 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Úff þetta er sko líka þráhyggja hjá mér. Ég leita uppi alla þætti um fólk sem grennist á hraðan eða hægan máta (Biggest Loser, Huge, Extreme makeover: weight loss edition, etc). Ég veit ekki alveg af hverju en það er eitthvað við það að horfa á spikfeitt fólk hamast í ræktinni, takast á við aukakg og sjá svo árangurinn í restina sem heillar mig.

Ég væri svooo til í að finna auðvelda lausn til að ná þessum síðustu kg af. Ég meina ég er búin að missa 40+ kg og ekki "nema" 8-10 kg eftir en mikið svakalega ætla þau að vera þrjósk. Eða kannski er það ég sem er þrjósk og er ekkert að takast á við þau. Ég veit vel hvað ég þarf að gera til að ná þeim af en ég einhvern veginn fæ mig ekki í það.

Ég skil ekki þennan hugsunargang þar sem ég veit að ég mun ekkert gefast upp fyrr en markmiðinu er náð en mikið svakalega er hausinn á manni skrítinn.

Og já, 500 kg - EKKERT MÁL, ég get borðað endalaust og ef ég borða bara óhollustu þá líður mér bara ekkert illa (líkamlega, andlega líður mér bölvanlega) og ég held bara áfram.

Mér finnst fínt að vera búin að finna handbremsuna en verst að maður getur alveg keyrt með handbremsuna á! :) En maður kemst ekki eins hratt og oftast nær þá virkar hún ágætlega.

murta sagði...

Þetta er gott; að keyra með handbremsunni. Ég set þetta í pælingasarpinn minn ;)

Nafnlaus sagði...

Já það er eiginlega ótrúlegt hvað líkaminn gefur lengi eftir! Maður bara stækkar og stækkar - án þess að springa einn daginn!

Ég þekki sjálf þessa baráttu alltof vel. Það er líka stundum þegar maður er í neðstu tröppunni og ætlar sér að komast upp að fallegasta, æðisgengnasta, dásamlega, dýrðlegasta (osfrv) stað veraldar sem er þarna efst efst upp í tröppunum. Þá stundum eru öll þrepin manni algerlega ofviða.
Og óþolinmæðin, sem ég á nóg af, situr með púkanum á öxlinni og segir manni svo margt og mikið .. afhverju maður getur þetta ekki, nennir þessu ekki, vill ekki osfrv.

En það er ljós við enda ganganna. Þetta þarf ekki að verða píslarvottaganga. Það er alltaf eitthvað nýtt og áhugavert að sjá í hverri tröppu. :)

-Ásta