sunnudagur, 7. ágúst 2011


Á Frankie and Benny´s.
Mikið sem þetta er búið að vera gott frí. Og mjög afslappandi. Ég er bara ekkert ósátt við að vera að fara aftur til vinnu, aðallega vegna þess að ég er með svo súper gott plan fyrir framtíðina núna og ég þarf að nota fastan vinnutíma til að koma öllu í réttan farveg hjá mér. Ég þrífst vel innan rúðustrikaðs ramma. Ég bætti á mig 1.5 kílóum í fríinu sem ég er þanneginlagað sátt með, ég er búin að setja þetta í samhengi við fortíð mína og framtíð og er núna að vinna í samtíðinni. Samkvæm sjálfri mér.
Í dag var kofinn þrifinn aftur, ég er reyndar örlítið slösuð og get ekki hreyft mig af þeim krafti sem ég hefði viljað. Ég snéri öfugt upp á vitlausa hnéð á röltinu í gær og er hálf ómöguleg í dag. Eins gott að það lagi sig fyrir þriðjudag þegar æfingar fyrir lokahlaup ná hámarki. Annars þá er ég líka að spá í að panta tíma hjá "osteopath" (hvað ætli það heiti á íslensku) til að athuga hvort ég geti verið að gera einhverjar æfingar til að styrkja sinar og vöðva í kringum hné svona fyrst skurðaðgerðir virkuðu ekki.

Heimalagað granola
Og svo stússaðist ég að sjálfsögðu í eldhúsinu. Hvað annað? Það er jú sunnudagur. Í dag hannaði ég mitt eigið "granola". Munurinn á múslí og granola er að granolað er ristað í fitu og sætindum öfugt við múslíið sem er vanalega bara korn, hnetur og þurrkaðir ávextir blandað saman. Þetta þýðir að sjálfsögðu að mér þykir nú meira varið í granola út á jógúrtið. En það er það sama með það og annað, ef maður býr það til sjálfur þá er að sjálfsögðu hægt að stýra fitumagni ásamt því hvernig sætuefni eru notuð. Ég notaði kókósolíu (skárra en flest önnur olía) gróft, hreint hnetusmjör (kalóríur já, en bara góðar) og sweet freedom (sykur já, en skárri en sá hvíti) og notaði bara 1/4 bolla. Svo eru þarna grófir hafrar, sólblóma-og graskersfræ, heilar möndlur og möndluflögur, ristuð kókóshneta, rúsínur, döðlur og cocoa nibs. Ju minn eini. Ég ristaði líka valhnetur í hunangi og chilipipar til að nota ofan á ávaxtasalat. Og allt þetta var til að ég setti lokahönd á þessar pælingar minar í sambandi við að borða "hreint". Ég hef ákveðið að ég ætla að skilgreina sjálf hvað er að borða hreint. Það sem ég fell vanalega á er þegar ég nota reglur frá öðrum. Ég virðist þurfa að skilgreina mínar eigin reglur til að ég geti fylgt þeim. My turf, my rules ef ég má orða það þannig. Ég ætla að vera minn eiginn æðsti prestur í mínum eigin sértrúarsöfnuði. Og er þannig búin að búa til matseðil fyrir næstu viku sem miðar að því að losa út eiturefni síðustu tveggja vikna ásamt því að venja mig við nýju reglurnar. Sem stendur er mesta áherslan lögð á skammtastærðir, ég var farin að borða allt of mikið. En ég er líka búin að taka eitt og annað út sem ekki á heima í mínum klúbbi. En ég er líka búin að bæta hinu og þessu inn sem ég er er spennt að fara að borða. Og ef vel tekst til ættu að fara að koma hreinar uppskriftir i lange baner.  Er ekki bara gaman að vera til?
Djúsí eða hvað?

Engin ummæli: