laugardagur, 5. nóvember 2011

Það er bara ein æfing eftir af þessu átta vikna 10 kílómetra hlaupanámskeiði sem ég hef verið á. Ég tók það saman og síðan í byrjun júní þegar ég byrjaði að hlaupa af alvöru hef ég hlaupið allavega þrisvar sinnum í viku án undantekninga. Ég hljóp þegar ég var í fríi, þegar ég var slösuð, þegar það var rigning og þegar ég þurfti að vakna klukkan tíu mínútur í fimm. Ég er afskaplega stolt af þessu. Mér finnst smávegis eins og þessi staðfesta sé það sem best lýsir því sem ég hef verið að gera hérna. Og er eiginlega heimspekin mín í verki gerð.

Hitt er svo setningin sem ég sá einhverstaðar fyrir nokkru. "Borðaðu mat. Ekki of mikið. Mestmegnis grænmeti."  Allt þetta sem fólk er að velta sér upp úr nútitldags, þessar pælingar allar um spelt og agave, um B-vítamín og kolvetni, um sjeika og frummannamataræði, um hráfæði og lífrænt ræktað. Það eina sem gerist er að venjulegt fólk ruglast bara í ríminu, veit ekki hvað er í tísku og hvað er sannleikur og hvað er rugl. Í alvörunni, það eina sem maður þarf að vita er að það á að borða mat, ekki of mikið af honum og að maður á að reyna að borða sem mest grænmeti. Allt hitt er bara hjal sölumanna. Það eru alltaf allir að reyna að selja eitthvað.

Ég er semsagt að leggja lokahönd á undirbúning fyrir 10 kílómetra kapphlaup. Ég hleyp orðið átta kílómetra svona nokkuð þægilega en það hefur reynst erfiðara að bæta við þessum síðust tveimur. Ég ætla að gera það um næstu helgi í London með Ástu. Meira um það síðar.

Mamma hjálpaði heilmikið til við þjálfunina þegar hún sendi mér hausljós svo ég sjái betur til við hlaupin. Það er kolniðamyrkur á nokkrum köflum og það er miklu betra ekki bara að ég sjái hvað ég er að gera heldur líka að þessir örfáu bilar sem eru á ferli á þessum tíma sjái mig. Ég er nefnilega eins og ninja - í svörtum galla og ekki nokkur leið að sjá mig. Dave var ægilega glaður þegar ég setti á mig ljósið, ekki bara af öryggisástæðum heldur aðallega vegna þess að ég er eins og velskur námamaður þegar ég set það upp. "Down the pits!" æpir hann þegar hann sér mig og fyllist þjóðernisstolti.

Ég tók mér frí í dag. Lúkas á átta ára afmæli á morgun og við buðum hingað heim örfáum vinum hans í snakk og köku. Ég vakti til þrjú í gærnótt við að baka handa honum kökuna sem hann bað um. Hún átti að vera Dalek, sem er karakter úr Dr Who. Ég byrjaði með þvílíkar tilætlanir um að gera hana í þrívídd en eftir mikinn grát og gnístran tanna og tvær kökur í ruslinu gafst ég upp og gerði hana flata. Lúkas var himinlifandi og heiður minn sem móðir og húsmóðir beið enga hnekki.

Partýið var frábært og Lúkas svo ánægður með daginn. Og bíður núna spenntur eftir alvöru afmælisdeginum og pakkanum frá mömmu og pabba. (Lego StarWars Ewok battle -proper geek!) Við Dave erum furðu lostin yfir því hversu vel úr garði hann er gerður. Við erum afskaplega lélegir foreldrar, löt og hugsunarlaus og fylgjum lítið reglum. En hann er þrátt fyrir það kurteis og skemmtilegur, ástríkur og hugulsamur. Við skiljum ekkert í þessu. En erum ægilega þakklát.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með drenginn.
K.kv Tóta