fimmtudagur, 29. mars 2012

Ég hef aldrei á ævinni klárað nokkurn skapaðan hlut. Ég byrja á endlausum verkefnum af krafti og einurð en missi svo áhugann og sný mér að einhverju öðru af sama krafti og einurð. Píanónám í æsku, endasleppt skiptinemavist í Bandaríkjunum, stjórnmálafræði, lögfræði og svo tók það mig áraraðir að klára enskuna. Ég komst meira að segja inn í FÍH í söngnám en einhvernvegin lét það svo bara fjara út. Ég hef alltaf talið þetta vera ljóð á ráði mínu, næstum persónuleikabrest. Það er nefnilega ekki gert ráð fyrir fólki eins og mér í samfélaginu. Það eru kröfur gerðar til manns að maður festi ráð sitt við eitt áhugamál, stundi nám í beinni línu og að eitthvað komi út úr öllu sem maður gerir. Að allt beri eitthvern ávöxt. Hvar er launaseðillinn, hvar er allt monníið? er maður spurður. Ég hristi oft höfuðið yfir sjálfri mér, hugsa jafnvel stundum með mér að ég sé að sóa tíma mínum og hæfileikum með þessu einbeitningarleysi. Að ég sé að sóa sjálfri mér. Og það sama virtist vera með breytingarnar sem ég hef gert á hreyfingu og mataræði. Ég gríp eitthvað á lofti, helli mér út í verkefnið af fullum krafti, slæ um mig með stórum yfirlýsingum... en fæ svo leið og breyti um og helli mér af sama krafti út í allt aðra aðferð.

Bara alltaf í stuði! 
En þegar ég sest niður og hugsa málið þá held ég að loksins sé komið að því að þetta sveimhuga mentalitet, þetta einbeitningarleysi sé að koma sér vel. Ég held að ég hafi fundið ástæðuna fyrir því að eitthvað hefur loksins að mestu leyti gengið upp hjá mér. Fyrri tilraunir til spiksköfunar hafa allar verið litaðar af því sem samfélagið ætlast til af mér; þeas ég hef rembst við og reynt að fylgja áætlun, fylgja prógrammi með upphafi, miðju og enda. En það er bara ekki ég. Ég fúnkera ekki í beinni línu. Þannig að þegar ég leyfði sveimhuganum að taka yfir og hætti að skammast mín fyrir að skipta um taktík og plan jafnóðum og ég skipti um nærbrók þá loksins fór þetta allt að virka.

Ég er að hugsa um að vera þessvegna loksins glöð og ánægð með að vera eins og ég er. Og þakklát fyrir að hafa loksins fundið eitthvað sem sýnir einbeitningarleysið í jákvæðu ljósi. Ég hef lært á öllum þessum hliðarsporum mínum að það þarf ekki bara að vera ein útkoma, ein niðurstaða möguleg. Og ég hef lært að díla við óvæntar uppákomur og óvæntar útkomur betur en ella. Ég breyti bara um ef niðurstaðan er mér ekki þóknanleg.

Það er ekkert til sem heitir endir eða lokaniðurstaða. Markmiðið er nefnilega ekki að fullkomna og klára, heldur að aðlaga og breyta og halda gleðinni út allt lífið. Og ef það eitthvað sem ég geri vel og af einurð og krafti þá er það að vera glöð.

4 ummæli:

Guðrún sagði...

Var rétt í þessu, einmitt, að segja við karl föður þinn að það eina sem er í stöðunni er að hafa gaman af lífinu. Annað er bara ekki í boði. Áttu ekki bara von á því að hann hafi verið mér sammála?

murta sagði...

Jú, það held ég hann hafi verið með þér í því. Og gott að vita að þið eruð í jafn góðu skapi og ég :)

Inga Lilý sagði...

Amen :)

Nafnlaus sagði...

Vá! Hefði getað verið að lesa um sjálfa mig þarna! Takk fyrir að minna mig á góðu punktana við að vera sveimhugi (einmitt það sem ég þurfti);)
-Ásta