þriðjudagur, 27. mars 2012


Rúllandi á IT-bandinu (illiotical band)
Síðan ég byrjaði að hlaupa hef ég fundið miklu meira fyrir öllum vöðvum en þegar ég lyfti af meiri ákefð. Og þegar ég segi fundið fyrir þá á ég við að þeir eru þreyttir og strengdir. Ég fæ til dæmis oft krampa í kálfana núna, eitthvað sem er alveg nýtt. Ég hef ekki efni á að fara reglulega í djúpvöðvanudd þannig að ég gerði bara það sem ég geri vanalega; redda þessu bara sjálf. Ég keypti mér foam roller. Það er bara 90 cm langur kvoðussýlinder sem maður leggur á gólfið og rúllar sér á honum fram og tilbaka. Maður notar eigin líkamsþyngd til að þrýsta og nudda hnúta og bólgur og þannig slakar maður á vöðvum og veitir vellíðan og almenna gleði. Foam rolling hefur líka fleiri kosti. Með því að nudda í burtu hnúta í vöðvum getur maður komið í veg fyrir meiðsli sem geta fylgt strengdum vöðvum. Nuddið getur slakað á stressi dagsins og við sem sitjum fyrir framan tölvu allan daginn ættum að nota rúlluna á hverjum degi. Svo getur maður aukið á teygjanleikann og þegar maður er fimari eru meiri líkur á að maður nái framförum í hverri þeirri íþróttagrein sem maður er að æfa.  Það eina er að þetta er svoooooo vont. Vá! hvað þetta er vont! Hver einasti hnútur sem ég vinn á er eins og að vera stunginn með söltuðum flökunarhníf. En mér skilst að því duglegri sem ég er við nuddið því mjúkari verði ég og það verði ekki jafn vont. Það er með þetta eins og allt annað, verst fyrst og svo smá versnar það.

Hætt að geta brosað, of sárt. Aaargh!

Engin ummæli: