föstudagur, 9. mars 2012

Það er búið að taka mig heila EILÍFÐ að fullkomna þessar. Og nú loksins eru þær tilbúnar.

Kókóshnetuhveiti er í raun afgangurinn sem verður eftir þegar olían og vatnið og mjólkin hafa verið fjarlægð úr hnetunni. Hveitið er í raun bara þurrkað hratið sem eftir verður. Þannig að það er ekki bara hollt heldur er það líka umhverfisvænt og sparneytið. Hér er verið að nýta afurð sem annars væri hent. Glútenlaust, kolvetnin eru nánast bara trefjar, fitulítið, bragðgott og ódýrara en önnur hnetuhveiti. What´s not to love?
En það virkar alls ekki eins og venjulegt hveiti. Það sýgur í sig allan vökva og fitu þannig að maður þarf að nota miklu minna magn en af venjulegu hveiti. Það er smá vinna að fatta hvað hentar best og hvernig er best að nota það.

Ég borða þessar í morgunmat og hádegismat og í kvöldkaffi. Ég bý til vænan skammt og geymi inni í ísskáp í tvo, þrjá daga. Smyr með smjöri, eða kókósolíu eða möndlu- eða kasjúhnetusmjöri. Fersk bláber... rjómi... nammi nammi namm.

Kókóshnetuhveitilummur.

1/3 bolli kókóshnetuhveiti
1 tsk lyftiduft
salt
Allt sigtað saman

4 egg
1 bolli (250 ml) mjólk
1 tsk vanilludropar

Msk kókósolía.

Hræra allt nema olíuna vel saman. Bræða olíuna á non stick pönnu og hella svo út í deigið og hræra. Hella svo deiginu á pönnuna í lummu stærð. Svona þrjár, fjórar lummur í einu. Láta vera þangað til að margar loftbólur eru komnar á yfirborðið. Snúa þá við og steikja í þar til gullnar allt um kring.

Ég elda á gasi og ég er með puttana á hitanum allan tímann sem ég er að steikja lummurnar.Upp og niður. Þannig að ég veit ekki hvort það er auðvelt að gera þær á rafmagnshellu. Það er heilmikið trix að þekkja hvenær þær eru tilbúnar til snúnings, snúa þeim svo snögglega þannig að ekkert leki út og allt er eins og á að vera. En maður minn, eru þær þess virði. Og nú er ég orðin svo sjóuð að ég hendi í þær, steiki og ét á 10 mínútum flat.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Girnilegt.
Færðu þetta bara í heilsubúðum þarna í UK ?
Og hvað heitir þetta á ensku?

kv.

murta sagði...

Ég kaupi það í Holland og Barrett og það heitir Coconutflour.

Nafnlaus sagði...

Ég hef keypt þetta í Kosti, á einmitt poka sem ég hef lítið notað, spurning að prófa þessar fljótlega ;)

kv Hólmfríður

Nafnlaus sagði...

ég var að prófa þetta - og áferðin er eins og eggjakakan og bragðið ekkert :/

Hvað er ég að gera vitlaust?

kv. Þórdís